Útvarpspredikun Hjartar Magna Jóhannssonar í Fríkirkjunni í Reykjavík 20. nóvember 2011
Útvarpspredikun Hjartar Magna Jóhannssonar
í Fríkirkjunni í Reykjavík 20.11.11.
Hvað merkir það að kenna trú sína við Margein Lúter? Hvað fannst Jesú um voldugar trúarstofnanir? Er vor framundan í kirkjumálum okkar landsmanna?
Mikið hefur gengið á í kirkjumálum hér á landi, undanfarin misseri. Nýjar fréttir berast svo til daglega. Innanríkisráðherra benti á í upphafi Kirkjuþings að staða þjóðkirkjunnar sem stofnunnar sé nú mjög til umræðu, spurt er hvort viðhalda eigi henni sem þjóðkirkju, hvort hún hafi hlutverki að gegna sem stofnun. Ríkiskirkjan undir eftirliti ríkis-endurskoðunar! Er hún rétt staðsett í lagaramma og regluverki samfélagsins, spyr ráðherra, réttilega. Úr-skráningar tala sínu máli. Æ fleiri landsmenn hafa ákveðið að skrá sig úr þjóðkirkjunni og það er mjög skiljanlegt. Vegna þjóðkirkjunnar, okkar ríkisreknu trúmálastofnunar fjölgar þeim nú mjög ört, sem kjósa að standa utan allra trúfélaga.
En á sama tíma fjölgar áframhaldandi, jafnt og þétt í Lúterskum Fríkirkjum, þeim evangelísku Lútersku Fríkirkjum sem kjósa þrátt fyrir mikla fjárhagslega mismunun að starfa á lýðræðis og jafnréttis grunni, óháð ríki. Samanlagt telja lúterskar fríkirkjur hér á landi, nú tugi þúsunda Íslendinga sem samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi eru látnir standa utangarðs og fá ekki að njóta þeirra réttinda sem sjálf stjórnarskrá lýðveldisins kveðjur á um.
En gott fólk hér í þessum orðum frá Fríkirkjunni við Tjörnina skal dvalið við hið jákvæða og bjarta! Ég trúi því að vor, von og birta, sé framundan í lífsskoðunar og trúmálum hér á landi og að það eigi einnig við um málefni hinnar almennu kirkju landsmanna en sú almenna- kirkja er ekki afmörkuð eða skilgreind eftir reglu-gerða-girðingum ríkis-kirkjunnar, heldur er sú kirkja, opin, í anda Jesú Krists og allir þeir sem vilja vera sannir í lífi sínu, allir þeir sem vilja vera samfélagslega ábyrgir og sýna náunganum kærleikar og samhygð í verki, allir þeir tilheyra hinni almennu kirkju og þar tel ég að flest allir landsmenn séu meðtaldir, þ.e.a.s. þeir sem kæra sig um.
Ég vil ræða við ykkur gott fólk, sem hér í tíma og ólíku rými hlustenda útvarps, eruð saman komin, á jákvæðis forsendum, aðeins, um þá kirkju-skipan sem okkur er ætlað að lifa við en einnig um þá valkosti og möguleika sem við okkur blasa, nú þegar við stöndum á tímamótum og horfum fram á við.
Getur verið að það sé vor framundan í kirkjumálum á Íslandi?
Jú, ég trúi því!
Hvað sagði Jesús um einráðar og voldugar trúarstofnanir?
Hvar er Guð að finna þegar trúarstofnanir bregðast? Hvað fannst Jesú frá Nazaret um hefðbundnar trúarstofnanir sinnar samtíðar? Hvað fannst Marteini Lúther um þær? Er þörf á að frelsa Krist úr viðjum kirkjustofnunarinnar? Hafa trúarbrögð og voldugar trúarstofnanir, komið óorði á Guð? Hvað finnst ykkur hlustendur um þessar spurningar?
En tilefnið, ástæða þess að ég forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar er að tala við ykkur hér í dag, er stofndagur Fríkirkjunnar hér í miðborg Reykjavíkur. Fríkirkjusöfnuðurinn var stofnaður í lok nóvember mánaðar árið 1899.
Við sem íslenskt grasrótarsamfélag fögnum hundrað og tólf ára afmæli okkar! Ef við miðum við mannsævina þá eru 112 ár langur tími. Saga Fríkirkjunnar er mun lengri en saga Íslenska Lýðveldisins en þó er Fríkirkjan rammíslensk alveg niður í dýpstu rótarenda.
Fríkirkjan hefur nú starfað á þremur öldum og hátt í fjórðung þess tíma sem liðinn er frá siðaskiptum.
Við Íslendingar fengum trúfrelsi afhent frá Dönum fyrir aðeins 137 árum. Fram að því, bæði í kaþólskum sið og síðan lúterskum, bjuggum við Íslendingar við trúar-nauðung. Allir þeir sem ekki fylgdu hinum opinbera sið voru taldir villutrúarmenn og oft á tímum var tekið hart á villutrú. Allt frá kristnitöku árið þúsund, fram til ársins 1874 bjuggum við Íslendingar við kirkjuskipan sem mótaðist af þörfum valds- og auðsmanna en ekki almennings.
Valdið í samfélaginu og þá kirkjunni kom að ofan, frá goðum, valdshöfðingjum, páfa, dönskum konungi og síðan ríkisvaldi. Þess vegna er Fríkirkjan sem íslensk grasrótarhreyfing svo dýrmæt og okkur öllum, mikilvæg!
Stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík í lok 19. aldar er með merkustu atburðum í rúmlega þúsund ára íslenskri kirkjusögu. Frá byrjun var Fríkirkjan grasrótarhreyfing og nýtt lýðræðisafl í ferskum anda nýfengins trúfrelsis. Hún var stofnuð af íslenskri alþýðu en ekki goðum, höfðingjum, valds- eða embættismönnum. Iðnaðarmenn og verkamannafjölskyldur voru í fararbroddi sem og fjölskyldur sjómanna og bænda sem voru að flytja hingað til Reykjavíkur. Stofnun Fríkirkjunnar gegndi mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni, eins og oft hefur verið vikið að.
Stofnunin og síðan bygging þessarar fögru stóru viðarkirkju hér við Tjörnina, – einkenndist af eldmóð, framtakssemi, trú, von og djörfung. Á fyrri hluta síðustu aldar tilheyrði helmingur íbúa Reykjavíkur Fríkirkjunni það er að segja áður en ríkiskirkjan með hjálp ríkisvaldsins fór að taka fólk af skrá, án vitundar eða samþykkis, í þúsunda vís, – Fríkirkjan hefur því alltaf verið miðlæg í sögu borgar og menningarlífs landsmanna.
Og nú í dag, Í vel rúman áratug hefur safnaðarfélögum fjölgað jafnt og þétt og brátt nálgumst við tíunda þúsundið, hvað félagatölu varðar. Fríkirkjan verður að fá að vaxa og dafna enn frekar.
Í síðasta mánuði hélt Sinead O´Connor hin heimsfræga írska söngkona tónleika hér í þéttsetinni kirkjunni. Við sem vorum ung fyrir ekki svo mörgum árum, munum vel lagði hennar “Nothing compares to U.” Það lag fór um heiminn allan og er löngu orðið klassískt. Sinead O´Connor er litrík persóna og er m.a. “fræg” fyrir að gagnrýna kaþólsku kirkjustofnunina m.a. fyrir afturhaldssemi í afstöðu sinni til kvenna, og afstöðu Kaþólsku kirkjunnar til getnaðarvarna í þriðja heiminum þar sem alnæmi er landlægt. Sinead O‘Connor er sjálf lærð í guðfræði, hefur hlotið vígslu, og ein plata hennar heitir einmitt Theology eða guðfræði. Hún hefur oft sagt.. – we need to free God from Religion – við þurfum að frelsa Guð undan valdi trúarbragðanna.
Getur verið að það sé þörf á því? Getur verði að það þurfi að frelsa Jesú úr fjötrum kirkjustofnanna?
Í 62. grein Stjórnarskrár íslenska lýðveldisins segir að Hin Lúterska kirkja skuli njóta stuðnings og verndar ríkisvaldsins. Rætt hefur verið um að fella þetta ákvæði úr stjórnarskránni og það var m.a. tillaga stjórnlagaþings.
En hvað felur það í sér að kenna trú sína við þennan þýska Martin Lúther? Hvað felur það í sér? Hver var hann?
Hann var skaphundur og glímdi líklegast við geðræna kvilla svo sem þunglyndi. Hann storkaði opinberlega voldugum trúarleiðtogum sinnar samtíðar og ögraði milljarða trúarstofnunum. Hann drakk líklegast fullmikið af bjór og lét hafa eftir sér á opinberum vettvangi ýmis skrif og ummæli sem eru vart birtingarhæf og í raun til skammar. Sagan segir að Lúther hafi markvisst unnið að því að frelsa nunnur úr ánauð klausturslífsins, smyglað þeim út í risastórum bjórtunnum og reynt að finna þeim eiginmenn. Þeirri síðustu sem hann gat ekki komið út, giftist hann sjálfur, segir sagan.
Siðbreytingin hér á landi sem kennd var við Lúther fól margt neikvætt í sér á mörgum sviðum og segja má að henni hafi í raun verið þröngvað upp á þjóðina. Eins hafa trúarleiðtogar og stofnanir notfært sér nafn hans og kenningar, sjálfum sér til framdráttar, með því að umsnúa hans boðsskap.
Þrátt fyrir allt þetta er ég þakklátur fyrir að geta kennt trúararfi minn við þennan mjög svo breyska, þýska Martin Lúther. Engan annan trúarleiðtoga utan Krists vildi ég heldur hafa nefndan í Stjórnarskrá íslenska Lýðveldis.
Hvers vegna?
Jú, því hann með mótmælum sínum tengdi trúna aftur við samfélagslegt réttlæti, frelsi, lýðræði og jafnræði, rétt eins og Jesú Kristur. Kirkjuskilningur hans var óljós og sem betur fer ófullmótaður vegna þess ástands sem ríkti í hans samtíð. En hann mótmælti af miklum krafti þegar kirkjustofnunin var farinn að upphefja og dýrka sjálfa sig og valda ímynd Krists miklum skaða.
Þeir sem játa lúterska trú teljast mótmælendatrúar.
Þörfin fyrir skapandi sjálfsgagnrýni og kröftug uppbyggileg mótmæli þegar við á, er öllum lýðræðissamfélögum lífsins nauðsyn. Og það er sú arfleifð sem gerir þennan breyska Martin Lúther svo mikilvægan fyrir okkar samfélag í dag.
Að baki Bús-áhalda-byltingunni stóðu íslenskir mótmælendur. Og þeir mótmæltu samfélagslegu ranglæti og misrétti. Það voru réttmæt og nauðsynleg mótmæli. Síðustu vikurnar hefur verið mótmælt kröftuglega en þó friðsamlega í mörgum helstu og stærstu borgum heims – fréttir hafa borist frá New York allra síðustu daga – Fólk er að mótmæla misskiptingu auðsins í heiminum. Þau friðsælu mótmæli eiga fyllilega rétt á sér.
Innan kristinnar trúarhefðar má rekja mótmælenda arfleifðina allt aftur til spámanna gamla Testamentisins. Spámennirnir voru öflugir og feikna ágengir mótmælendur allrar samfélagslegrar mismununar. Þeir voru boðberar samfélagslegs réttlætis og jafnræðis. Þeir gagnrýndu blóðfórnir musterisins og mótmæltu trúarstofnun sinnar samtíðar. Þeir kröfðust þess að oki kúgarana yrði lyft, fjötrar leystir, bandingjum gefið frelsi, og kúgurum steypt af stalli.
Á tímum Jesú Krists voru Saddúkear, viss trúarleg yfirstétt, sjálfs yfirlýstir eigendur átrúnaðarins og hins trúarlega arfs. Þeir voru sem forréttinda yfirstétt hinna trúuðu meðal þjóðar sem glímdi við gífurlega kreppu og ánauð. Ætla mætti að Jesús Kristur hafi ráðfært sig við þá um öll sín áform. En svo virðist að Jesús hafi haft samskipti við alla hópa samfélagsins nema þessa sjálfsskipuðu erfingja trúararfsins, Saddúkeana. Jesús tókst á við þá í orðaskiptum og sakaði þá um fávisku og hræsni. Hann sakaði þá um að hindra fólk í því að nálgast Guð sinn. Jesús hélt miklar skammarræður yfir þeim. Þeir komu hjálpræðisboðskap hans ekkert við. Í reiði sinni velti Jesús um borðum víxlaranna í musterinu, þar sem Saddúkear réðu. Það er athyglivert að sjá að þó svo að kirkjusamfélagið hafi fært okkur Biblíuna og vitnisburðinn um Jesús Krist að þá gaf hann fá, ef nokkur fyrirmæli um kirkjustofnunina – enda ætlaði hann sér aldrei að koma á fót neinni stofnun, hvað þá trúarbrögðum!
Í frelsis og hjálpræðisboðskap Jesú Krists á allur almenningur aðgang að himnaföðurnum, hans náð, miskunn og dýrmætri lífsorku – ókeypis.
Á tímum Marteins Lúthers hafði rómversk kaþólska kirkjustofnunin tekið upp á því að selja fátækum almenningi aðgang að Guði. Og byggði m.a. Péturskirkjuna í róm fyrir gróðann. Kaþólska kirkjustofnunin gerði sjálfa sig að Guði og hefur síðan skrásett það i eigin kenningar t.d. með ákvæðum um óskeykuleika Páfa og með því að halda því fram að ekkert hjálpræði sé að finna utan kaþólsku kirkjunnar. Lúther blöskraði og mótmælti kröftuglega ásamt öðrum siðbótarmönnum. Og það leiddi síðan til siðbótar.
Á hans tíma gat almenningur ekki lesið Biblíuna né skilið helgihaldið því það var allt á latínu, máli trúarstofnunarinnar; prestanna, biskupanna, kardínálanna og páfa.
Lúther tók sig til og þýddi Biblíuna á það tungumál sem fólkið skildi og losaði fólkið þannig við alla óþarfa milliliði.
Hann boðaði að allir menn væru prestar, og því allir jafngildir erfingjar hins trúarlega arfs.
Hann boðaði að kirkjan er fólkið og söfnuðurinn er æðsta vald í sínum eigin málum óháð biskupsembættum og kirkjuþingum.
Lúther var ekki sérlega vel við biskupsembættið. Þannig að báðir þeir Jesú frá Nasaret og Marteinn Lúther voru mjög gagnrýnir á trúarlegar stofnanir sinnar samtíðar.
Á okkar tímum. Hin spámannlega og sjálfsgagnrýna rödd ætti að vera eitt helsta einkenni lúterskrar kirkju. Það eiga allir að vita. Sú sjálfsgagnrýni á bæði að beinast að trúarumgjörðinni sem að hinum trúarlega grunni. Og það er einmitt það sem gerir það fýsilegt að kenna sig við Lúther í nútíma upplýstu samfélagi. Þess vegna getum við t.d. sagt hér í Fríkirkjunni að mannréttindi séu æðri trúarlegum kreddum. Leifum anda hins kristna Marteins Lúthers að lifa meðal okkar. Það er farsælast.
Bæði Jesú Kristur og Marteinn Lúther töldu manngildið æðra trúar-kreddum og trúar-stofnunum.
Það er í raun dapurlegt að sjá hvað, við hin trúuðu, höfum verið iðinn í aldanna rás við að búa til allskyns hindranir, skilyrði, þröskulda og hömlur þegar kemur að því að nálgast Guð. Við þurfum að veita Guði frelsi á ný! Þessar hömlur og hindranir hafa bæði verið á sviði vitsmuna og þekkingar sem og á hinu tilfinningalega sviði.
Kirkjustofnunin hefur t.d. lengi verið sek um það að brjóta sjálfsmynd mannsins niður með ofuráherslu á synd mannsins og sekt. Og það hefur verið gert í nafni fagnaðar-erindisins. Hvílík mótsögn. Við þurfum ekki á því að halda í dag á tímum kreppu og niðurbrots!
Við höfum krafist þess að þeir sem vilja fylgja Kristi þurfi að byggja lífsskoðun sína á löngu úreltri heimsmynd, bókstaflegri tilvísun í yfirnáttúruleg furðuverk, fornan skáldskap og myndlíkingar, sem finna má í ævafornum trúarritum. Þar sem höfundar ætluðust aldrei til að skrif þeirra væru tekin bókstafslega.
Allt þetta í stað þess að við einfaldlega tileinkum okkur upplýsta heimsmynd nútímans og reynum að efla okkar eigin sjálfsmynd, bæði karlar og konur.
Og viti menn, Jesús Kristur leitast einmitt við að losa okkur við slíkar hömlur, trúarlegar hindranir og tregðulögmál trúarinnar. Það er nákvæmlega það sem Jesús Kristur leitaðist við að gera í sinni samtíð!
Þess vegna hef ég undanfarin ár, hvatt til þess að ábyrg lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt fái réttindi og stöðu á við trúfélög. Og það hefur nú verið gert – og ég fagna því. Ég óska Siðmennt heilshugar til hamingju með áfangann. En það eru einmitt siðrænir húmanistar sem helst hafa bent á mistök kirkjustofnunarinnar og sjálfir fundið þungann af þeim mistökum. Húmanistar sem leggja áherslu á manngildið og siðræna hegðun, þeir eru ekki óvinir Jesú frá Nasaret. Þeir eru hans samferðamenn og við erum einnig á sömu vegferð og þeir.
Bæði í orðum og verkum leitaðist Jesús við að losa konur sem karla, undan þeim fjötrum sem þröngsýni og trúarstofnanir hans tíma heftu menn í.
Grundvöllur boðunnar Jesú Krists var fyrir 2000 árum og er enn í dag boðun guðsríkisins. Í þeirri fögru sýn fullkomnast mennska mannsins, hann gefur okkur framtíðarvon, gerir okkur styrk og heil, þar leiðast kærleikur, réttlæti og miskunnsemi og heiðarleiki, hönd í hönd.
Guðsríkisboðun Krists var og er óháð öllum forneskjulegum trúarritum, sundurgreinandi trúarjátningum eða miðalda kreddum.
Sú áskorun sem Kristur setur hinum trúaða manni í dag, er að hann útvíkki trúarhugsun sína.
Trúin er vegferð og Guð er ljóssins-þroskaferli.
Að hinir kristnu þroski sína trúarlegu hugsun upp yfir útilokandi ættbálka hugsun sem aðgreinir og fordæmir og hefur valdið ótrúlegum skaða. Slík hugsun byggir í raun á ótta í stað trúar.
Kristur væntir þess af okkur sem kennum okkur við nafn hans, að við höfum lært eitthvað af oft sorglegri sögu kristindóms í mannheimi. Hann veit að við vitum þetta og væntir þess að við lærum af.
Við erum öll kölluð til að taka þátt í uppbyggingu hins nýja Íslands.
Nýja Ísland kallar á nýja umgjörð trúmála!
Okkar sögulegi lúterski – mótmælenda trúararfur kallar á endurskoðaða umgjörð lífsskoðana- og trúfélaga í landinu!
Sú umgjörð verður að rúma trú, vonir, drauma og andlegar væntingar allra landsmanna. Sú lagalega umgjörð verður að vera trúverðug í anda lýðræðis og jafnréttis því einungis það er í anda Lúters og Jesú Krists.
Að vinna að slíkri umgjörð er heillandi viðfangsefni. Það er í anda nýsköpunar og sprotastarfsemi og einmitt þar, framundan, sem Guð er að finna.
Ég trúi því að nú sé lag í kirkjumálum á Íslandi til að vinna saman að slíkri umgjörð. Evangelísk lúterskar Fríkirkjur sem nú telja vel á annan tug þúsunda Íslendinga, sívaxandi fjölda fólks eiga einnig að koma að kjöri nýs biskups! Það á að láta af og hætta allri sérhagsmunavörslu, útilokun og þöggun. Lúterskar fríkirkjur sem starfað hafa í meira en heila öld undir formerkjum evangelískrar lúterskrar kristni hafa aldrei afsalað sér sínum trúarlega arfi. Það á ekki að refsa lúterskum fríkirkjum fyrir djörfung og vöxt. Það á að hætta öllum stofnunarlegum þvingunum og fjárhagslegri mismunun. Þjóðin – hin almenna kirkja sér í gegnum allt slíkt. Ég trúi því að með samstilltu átaki allra, náum við að skapa trúverðuga umgjörð trúar og lífsskoðunarmála hér á hinu nýja Íslandi. Og þannig vitnum við sameiginlega um hið jákvæða og bjarta í lúterskri trúararfleifð.
Hugsum út fyrir kassann -þar er Guð að finna! Guð er nefnilega utan þess kassa, sem svo margir halda að hann sé fjötraður í.
En til þess þarf trú, von og djörfung, frjótt ímyndunarafl og skapandi hugsun.
Guð er ekki að finna í úreltum hefðum, miðalda skrauti eða lífvana siðum. Guð er ekki að finna í endurgerð risavaxinna miðalda kirkjubygginga, hvort sem þær eru gerðar úr grjóti eða timbri. Trúverðugleiki verður ekki keyptur með enn einni kirkjubyggingunni, þegar risavaxnar skuldir vegna fyrri kirkjubygginga og viðhalds þeirra, eru að sliga marga söfnuði landsins. Við erum hér saman komin í stórri og glæsilegri aldargamalli timburkirkju, Fríkirkjunni við Tjörnina – væri ekki nær að trúarstofnunin gæfi henni og því sem hún stendur fyrir, smá gaum.
Aðeins Guð einn er óbreytanlegur. Allt annað í þessari furðu tilveru okkar er breytingum háð. Meira að segja okkar hugmyndir um það hvernig Guð er, þær breytast með tímanum, einfaldlega vegna okkar eigin smæðar og takmarka. Og hugmyndir okkar um Guð, eiga að breytast því að Guð er stöðugt að, við ef við höfum opin huga og temjum okkur auðmjúkt hugarfar Krists þá getum við stöðugt lært nýja hluti. Þannig uppgötvum við ný sannindi um okkur sjálf, um náungan og um Guð í gegnum samskipti okkar við náungann, því að í náunganum er jú Guð að finna.
Hin almenna kirkja á að fá að breytast í samræmi við breytingar samfélagsins og nýja þekkingu. Kirkjan á að ganga fram í trú og djörfung ekki bregðast við í ótta, flýja inni í fortíðar dýrkun eða grípa til forræðis hyggju gagnvart náunganum.
Kristur vill ekki að samfélag sinna fylgjenda beri ímynd úreltrar stofnunar eða einskonar þjóðminja-safns staðnaðra hefða. Hann er ekki sá Guð sem var. Hann er aftur á móti alltaf sá Guð sem kemur og sá Guð sem gerir alla hluti nýja.
Hann frelsar okkur einmitt frá okkar eigin kassalöguðu takmörkunum. Það er hans byltingarkenndi boðskapur.
Hann vill frelsa okkur frá skammsýni okkar, okkar eigin kvíða og ótta.
Hann vill að við vonum, dreymum og þráum langt, langt umfram það sem við höfum hingað til getað eða þorað að vona! Í því felst hans fagnaðarerindi.
Hann vill leysa okkur úr viðjum okkar eigin takmarka, okkar eigin miskaka, okkar eigin breyskleika. Kristur brýtur ok okkar eigin fortíðar, ef við aðeins leyfum.
Hjörtur Magni Jóhannsson
Útdráttur;
• Úrskráningar úr Þjóðkirkju – mikil fjölgun í Fríkirkjum sem telja nú vel á annan tug þúsunda safnaðarfélaga.
• Hvað fannst Jesú um voldugar trúarstofnanir?
• Hvað fannst Marteini Lúter um voldugar trúarstofnanir?
• Þarf að frelsa Jesú úr viðjum trúarstofnanna?
• Hvað merkir það að kenna sig við Martin Lúter?
• Því fagnað að lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt fái réttindi og stöðu á við trúfélög.
• „Evangelísk lúterskar Fríkirkjur sem nú telja vel á annan tug þúsunda Íslendinga, eiga einnig að koma að kjöri nýs biskups! Það á að láta af og hætta allri sérhagsmunavörslu, útilokun og þöggun. Lúterskar fríkirkjur sem starfað hafa í meira en heila öld undir formerkjum evangelískrar lúterskrar kristni hafa aldrei afsalað sér sínum trúarlega arfi. Það á ekki að refsa lúterskum fríkirkjum fyrir djörfung og vöxt“.
• „Guð er ekki að finna í endurgerð risavaxinna miðalda kirkjubygginga, hvort sem þær eru gerðar úr grjóti eða timbri. Trúverðugleiki verður ekki keyptur með enn einni kirkjubyggingunni, þegar risavaxnar skuldir vegna fyrri kirkjubygginga og viðhalds þeirra, eru að sliga marga söfnuði landsins“.
• Nú þurfa allir að vinna saman að trúverðugri umgjörð lífsskoðana og trúmála á nýja Íslandi.