Stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík í lok 19. aldar er með merkari atburðum íslenskrar kirkjusögu. Frá byrjun var Fríkirkjan grasrótarhreyfing og nýtt lýðræðisafl í ferskum anda nýfengins trúfrelsis. Hún var stofnuð af íslenskri alþýðu en ekki goðum, höfðingjum, valds- eða embættismönnum. Iðnaðarmenn og barnmargar verkamannafjölskyldur voru í fararbroddi sem og fjölskyldur sjómanna og bænda sem voru að flytja til Reykjavíkur. Stofnun Fríkirkjunnar gegndi mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Stofnunin og síðan bygging hinnar stóru viðarkirkju við Tjörnina einkenndist af einstakri framtakssemi, trú, von og djörfung. Á fyrri hluta síðustu aldar tilheyrði helmingur íbúa Reykjavíkur Fríkirkjunni og því hefur hún alltaf verið miðlæg í sögu borgar og menningarlífs landsmanna.
Allir eru velkomnir í Fríkirkjuna, óháð þjóðerni, litarhætti, tungumáli, kyni, kynhneigð, samfélagsstöðu eða trú. Okkar samfélagslegu gildi og trúarlegu leiðarljós hafa frá upphafi verið: Heiðarleiki, jafnræði, frelsi, djörfung, mannréttindi, umburðarlyndi og víðsýni. Allt eru þetta gildi sem eiga sér djúpar og órjúfanlegar rætur í þjóðarsál okkar.