Útvarpsprédikun Hjartar Magna Jóhannssonar Fríkirkjuprests 21. nóvember 2010

Útvarpspredikun Hjartar Magna Jóhannssonar, Fríkirkjuprests 21.nóv. 2010

 Senn verður kosið til stjórnlagaþings, stjórnarskráin skal endurskoðuð. Hvernig treystum við grundvöllinn á sviði siðferðis, lífsskoðana og trúar? Megi blessun og farsæld fylgja því mikla verki sem framundan er.

  • Þjóðkirkjan – kaþólskari en páfinn.
  • Einn fimmti hluti þjóðarinnar útilokaður
  • Siðlausir útrásarvíkingar í nafni kirkju og Krists
  • Guðfræðideild H.Í. – hagsmunatengsl og ótrúverðugleiki
  • Þjóðkirkjan í 1000 ár??
  • Þjóðkirkjan kallar á niðurfellingu 62. greinar með framgöngu sinni
  • Sören Kirkeggrd
  • Leo Tolstoy
  • Látum ekki afturhaldssamar trúarstofnanir ræna Guði frá okkur.

62. grein Stjórnarskrárinnar

Í 62. grein Stjórnarskrár lýðveldisins segir orðrétt “Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.” Tilvitnun lýkur.

Ég er nokkuð sáttur við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar – og ég skal segja ykkur hvers vegna. Það er ekki vegna þess að ég er sjálfur prestur í lúterskri kirkju og að ég sjái mér þess vegna persónulegan hag í því að stjórnarskráin styðji þá kirkjudeild.

Það segir hvergi að stjórnarskránni sé ætlað að vernda þjóðkirkjustofnunina! Stjórnarskráin á að vernda Evangelíska Lúterska kirkju!! Fríkirkjan, hér við tjörnina í Reykjavík, hefur nú verið starfandi sem grasrótarhreyfing lúterskra í 111 ár! Hún var stofnuð skömmu eftir að við Íslendingar fengum trúfrelsi frá Dönum. En mín Evangelíska Lúterska kirkja nýtur engrar þeirrar verndar sem Stjórnarskráin kveður á um og hún hefur búið við hróplega mismunun af hendi hins opinbera og þjóðkirkjunnar. Þó fjölgar meira í Fríkirkjunni en nokkru öðru íslensku trúfélagi um leið og það fækkar í þjóðkirkjunni með alla sína milljarða frá ríkinu.

Í raun tengi ég mig ekki við neina eina kirkjudeild. Guð almáttugur er í raun gersamlega óháður öllum kirkjudeildum og trúarbrögðum yfir höfuð. Við ættum að vera búin að læra það fyrir löngu síðan, einfaldlega í gegnum söguna, öll kirkjustríðin og trúarbragða átökin. Einnig hvernig menn hafa misnotað kirkjustofnunina og nafn Guðs í eigingjörnum tilgangi og gera það enn blygðunarlaust. Guð vill að við drögum lærdóm af kirkjusögunni og því sem við sjáum í dag. Þannig hugsar Desmond Tutu Biskup í Suður-Afríku og Dalaí Lama, hinn Búddíski mannvinur, sem báðir eru víðsýnir og virtir trúarleiðtogar á heimsvísu. Jú, slíka trúarleiðtoga er að finna í heiminum í daga, þó svo að þeir séu ekki margir hér á landi. En „kirkju-stofnunar-menn“ hafa verið einstaklega tregir til að læra af sögunni.

Evangelísk Lútersk kirkja

Hinn breyski Marteinn Lúter þýddi Biblíuna á það mál sem almenningur talaði og barðist þannig gegn stofnunarvæðingu trúarinnar. Hann sagði fólkinu að það þyrfti enga milliliði, presta, biskupa eða kirkjustofnanir til að tala við Guð sinn. Það, að kenna sig við þann Lúter, merkti, a.m.k. upprunalega, að menn vildu stuðla að samfélagslegu réttlæti og jöfnu aðgengi allra landsins þegna að hinum trúarlega arfi!      

Það sem mér finnst einna mest vænt um og mikilvægast, er að það, að kenna sig við, á að fela í sér gagnrýna hugsun, spámannlega framgöngu á hinu trúarlega sviði, uppbyggilega ádeilu á ríkjandi ástand og rétt til mótmæla sem er nauðsynlegur þáttur í lýðræðis samfélagi. Það er m.a. hlutverk okkar evangelísku lútersku kirkju í okkar samfélagi.

Og nú, gott fólk, þegar við búum hér við ríkisrekna trúmálastofnun embættismanna sem sérhæfir sig í sérhagsmunavörslu og rænir þjóðina sínum kirkjusögulega arfi og vill láta líta úr fyrir að það sé í nafni Lúters, Krists og náungakærleikans – þá er það mín evangelíska lúterska skylda að mótmæla kröftuglega. Og það geri ég.   Það er í anda lýðræðis og jafnræðis að mótmæla framgöngu hinnar ríkisreknu þjóðkirkju sem virðist í mörgu vera orðin kaþólskari en sjálfur páfinn – þeim hinum sama og lúterskri kirkju var ætlað að standa gegn, andmæla og siðbæta.

Sú lagaumgjörð og sérsamningur sem í gildi er í dag varðandi þjóðkirkju er í raun hvorki í samræmi við ákvæði stjórnarskrár né grundvallar ákvæði lúterskrar trúar sem þjóðkirkjan er sögð játa. Lögin og samningurinn við þjóðkirkjuna eru aðeins um það bil þrettán ára gömul og þeim má vel og auðveldlega breyta. Lögin fela það í sér að búin var til hugmynd um kirkjusögulegan arf þjóðarinnar, kirkjujarða arf sem átti að hafa safnast saman í þúsund ár.   Hins vegar er arfurinn ekki greiddur út til erfingjanna, sem er auðvitað öll hin íslenska þjóð sem borgað hefur sinn þvingaða kirkjuskatt í aldanna rás. Nei, með lögunum sem sett voru fyrir þrettán árum var búið til sér félag einkaerfingja alls kirkjusögulegs arfs þjóðarinnar, sem er í dag hin ríkisrekna þjóðkirkjustofnun, einskonar sértrúarfélag ríkisins sem fær ár hvert nokkra milljarða í sína digru sjóði, umfram aðra.

Þar var ekki farið eftir 62. gr. Stjórnarskrárinnar þar sem alls ekkert samráð var haft við önnur Evangelísk Lútersk trúfélög, en þau eru nokkur hér á landi. Hvorki var hlustað á skráðar athugasemdir þeirra né aðfinnslur Fríkirkjunnar.  

 Sú lagalega umgjörð trúmála sem við búum við í dag kann að vera lögleg en hún er vissulega siðlaus. Í ráðuneytinu, sem er ekki lengur kennt við kirkju, er talað um að nú sé svo til alveg búið að greina á milli ríkis og kirkjustofnunarinnar. En þó svo að fjármagn hafi verið flutt á milli stofnana, skilgreiningum hagrætt og auglýsingaskiltum breytt eins og hjá bönkunum, þá hafa mörg skref verið tekin afturá bak, í átt til myrkra miðalda hvað varðar trúfélagafrelsi og jafnræði kristinna trúfélaga. Er það það sem ráðherrann Ögmundur Jónasson vill sjá og vernda?

 Einn fimmti hluti þjóðarinnar kýs nú í dag að standa utan þjóðkirkjunnar. Flestir þeirra eru kristnir, upplýstir einstaklingar og eiga rætur sínar að rekja 1000 ár aftur til kristnitöku.

Hvers vegna eru þeir útilokaðir frá sínum kirkjusöguleg arfi?

Við hin mörgu sem tilheyrum þessu þessum sístækkandi hópi þurfum þó að greiða óbeint til ríkiskirkjunnar af sköttum okkar, en það brýtur í raun gegn 64. grein stjórnarskrár lýðveldisins, þar segir ”Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að”.

Svolítið hefur verið alið á þeim ótta að ef við komum á jafnræði trúfélaga hér á landi værum við að grafa undan grunnstoðum samfélagsins. Nei, alls ekki. Með því að koma á jafnræði trúfélaga hér á landi þá erum við í raun að styrkja okkar grunnstoðir og fornu gildi. Það er leið jafnræðis, réttlætis og lýðræðis og það er leið þeirra Lúters og Krists. Það er sú þróun sem við sjáum víðast hvar í hinum vestræna heimi.

Siðlausir útrásarvíkingar í nafni kirkju og Krists

Nú þegar þjóðkirkjustofnunin er sjálf búin að koma sér í öngstræti án utanaðkomandi hjálpar og missa trúverðugleika, þá eru sumir talsmenn stofnunarinnar og prestar hennar farnir að tala æ meir eins og siðlausu útrásarvíkingarnir gerðu. Þeir segja „jú endilega að greina á milli ríkis og kirkju, en vitið þið bara, að við höldum einir hinum kirkjusögulega arfi og milljörðunum öllum um ókomin ár“. Þá telja þeir sig eina vera hina sönnu kirkju en ekki fólkið sjálft eins og Lúter gamli hélt fram.

Einn af prestum þjóðkirkjunnar, sem er mjög áberandi á kirkjuþingi, skrifaði grein í Fréttablaðið nú á þriðjudaginn síðasta, þar sem hann varar alvarlega við aðskilnaði ríkis og kirkju. Af hans orðum mátti ráða vissa hótun um að ef skilið yrði á milli íslenska ríkisins sem jú stendur fyrir íslenska þjóð annarsvegar og þjóðkirkjustofnunarinnar hinsvegar, þá myndi prestur og hans kirkjustofnun taka helstu dýrmæti Íslands og gera ríkissjóð gjaldþrota. Bein tilvitnun hefst: „Skilja strax? Ja, þá verður ríkið jafnvel dæmt til að skila öllu eignasafninu, sem í eru nokkur helstu dýrmæti Íslands, t.d. Þingvellir, allt land Garðabæjar (land Garðakirkju), Borgarnes (land Borgar). Ríkissjóður Íslands hefur jafnvel ekki burði til að skila eða bæta. Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar.“ Tilvitnun í orð þjóðkirkjuprests og kirkjuþingmanns lýkur. Þetta minnir óneytanlega svolítið á hrokafullt tal forstöðumanna bankanna og útrásarvíkinga fyrir hrun, – en nú bara í skjóli kirkju og Krists. Hver þeirra skyldi ætla að eigna sér Þingvelli? Hver þeirra ætlar sér allan Garðabæ? Staðina er nú ekki hægt að flytja til Cayman eða Tortilla eyja en arfinn og arðinn er eflaust hægt að flytja út. Hvaða þjóðkirkjuprestur eða starfsmaður biskupsstofu skyldi nú vera að taka út kirkjusögulegan arf minna formæðra og forfeðra – eða arf hvítasunnumanna? Það væri gaman að vita. Þetta er fyrir löngu komið á svið fáránleikans.

 Guðfræðideild H.Í. – hagsmunatengsl og ótrúverðugleiki

Ætla mætti að Guðfræðideild Háskóla Íslands og þeir sem þar starfa gætu veitt þjóðkirkjustofnuninni gagnrýni og aðhald, þó ekki væri nema einungis vegna kröfunnar um akademískt hlutleysi og víðsýni. En guðfræðideildin er nátengd þjóðkirkjunni fjárhagslegum hagsmunaböndum sem og nánum fjölskyldu- og vinaböndum. Og því miður hafa dæmin sannað að þaðan er ekki að vænta hinnar spámannlegu gagnrýnu raddar. Guðfræðideildin virðist hafa þau hlutverk umfram það að framleiða presta fyrir stofnunina, að gefa ríkiskirkjunni akademískan trúverðugleika og að túlka hugtök ríkiskirkjunni í vil svo að við notum t.d. ekki orðið ríkiskirkja, sem stofnuninni er sérlega illa við. Þar er ekki fjallað um önnur trúfélög með sama hætti og ríkiskirkjuna sem er hin eina sanna kirkja þar á bæ. Kirkjuhugtakið hefur mikið verið misnotað.

Samkvæmt „ríkiskirkjuhugmyndafræðinni“ er öðrum trúfélögum ekki ætlað að vaxa og stækka, eins og Fríkirkjan við Tjörnina hefur stolist til að gera í óþekkt sinni, heldur er öðrum trúfélögum ætlað með sinni eigin smæð og vanmætti að vísa upp til mikilfengleika ríkiskirkjunnar. Þetta minnir í ýmsu á ástandið í Austur-Evrópu fyrir fall járntjaldsins hvað varðar jafnræði pólitískra stjórnmálaflokka. Það var látið líta svo út sem allir pólitískir flokkar gætu þrifist, en svo var auðvitað ekki, – það var bara sýndarleikur til að upphefja hinn eina sanna flokk.

Þjóðkirkjan í 1000 ár??

Ekki er að heyra neinar aðfinnslur frá Guðfræðideild Háskóla Íslands þegar talsmenn þjóðkirkjunnar falsa söguna og búa til sína eigin kirkjusögu og skrifa og ræða um þjóðkirkjuna í 1000 ár. Þetta skiptir þá máli til að komast yfir allar eignirnar. Allir þokkalega upplýstir Íslendingar vita að kaþólskur siður ríkti hér á landi í um helming þess tíma. Þó er að finna heilt prófessorsembætti í kirkjusögu innan guðfræðideildar. Þar hefur því verið haldið fram að þjóðkirkjan njóti eða eigi að njóta „jákvæðrar mismununar“ gagnvart öðrum trúfélögum eða ríki. Hugmyndin um jákvæða mismunun eða positve discrimination á ensku varð til í mannréttindabaráttunni þegar leitað var leiða til að hjálpa kúguðum minnihlutahópum til að ná stöðu sinni í samfélaginu. Ef Guðfræðideild Háskóla Íslands lítur á þjóðkirkjuna sem kúgaðan minnihlutahóp í íslensku samfélagi þá er það alveg glæný og merkileg akademía!

Á vegum eða a.m. k. í tengslum við Guðfræðideild Háskóla Íslands hafa verið framkvæmdar kannanir um trúarlíf Íslendinga. Þær kannanir hafa sýnt eins og aðrar kannanir, að þjóðkirkjuumgjörðin hæfir alls ekki íslenskri þjóð. Innan deildarinnar eru þó dregnar allar hugsanlegar og óhugsanlegar akademískar ályktanir út frá könnunum – nema þær augljósu sem blasa við öllum; yfirbyggingin og umgjörðin hæfi alls ekki grundvellinum eða innihaldinu.

 Ný lagaleg umgjörð

Aftur að 62.gr. Stjórnarskrárinnar, þar sem getið er um sérstöðu hinnar Evangelísku Lútersku kirkju. Sumir vilja fella þá grein niður.

Það sem hæst kallar á niðurfellingu 62. gr . er einmitt sú framganga þjóðkirkjustofnunarinnar sem hér hefur verið lýst! Í raun ætti það ekki að vera nauðsynlegt að fella greinina niður. Miklu nær væri að endurskoða ef ekki fella alveg úr gildi siðlausan samning ríkis og þjóðkirkju sem gerður var fyrir aðeins þrettán árum. Það er fyrst og fremst sá samningur sem kemur í veg fyrir fullt trúfélagafrelsi hér á landi. Með endurskoðun þess samnings mætti losa hina almennu kirkju úr viðjum.

 Við Íslendingar þurfum að stefna að nýrri lagalegri umgjörð lífsskoðana og trúmála sem hæfir.  Vandlætingarfullir kirkjustofnunarmenn berja nú á húmanistum og guðleysingjum í blaðaskrifum.   Hin nýja lagalega umgjörð verður einnig að höfða til húmanista og trúleysingja því þeir eiga einnig sínar vonir og væntingar um betra líf og þeir, e.t.v. frekar en margir aðrir, hafa fundið þungann af mistökum trúarstofnunarinnar í aldanna rás.

Sören Kirkegaard og Leo Tolstoy

Tveir helstu hugsuðir gjörvallrar kristni, að minnsta kosti á seinni öldum voru þeir Sören Kirkegaard, hinn danski og Leo Tolstoy, hinn rússneski.

Sören Kirkegaard (f. 1813-d. 1855) er ekki aðeins þekktasti guðfræðingur Norðurlanda, heldur einn mikilvægasti heimspekingur í sögu vesturlanda. Hann var samtímamaður Fjölnismanna og gekk um stræti Kaupmannahafnar á sama tíma og þeir.   Hann var kunnugur þeim og nefndi reyndar Grím Thomsen í einu af fjölmörgum ritum sínum. Kirkegaard áleit það eitt helsta viðfangsefni sitt að útskýra hvað felst í því að vera kristinn. Hann var ákaflega gagnrýninn á dönsku ríkiskirkjuna og höfð hafa verið eftir honum þau orð að prestar séu alls ekki æðstu dómarar í því hvað felst í því að vera kristinn; “Klerkar eru embættismenn ríkisins og embættismenn ríkisins eru kristindómi óviðkomandi”.   Samt sem áður eru það ein helstu rök þjóðkirkjustofnunarinnar fyrir sínum forréttindum, að kristni geti ekki þrifist á Íslandi án sóknarprestanna í sóknum landsins sem sérstakra útsendara embættismanna frá Biskupsstofu í Reykjavík. Kirkegaard hafði ekki mikla trú á slíku og formælti ríkiskirkjunni fyrir að afkristna þjóðina. 

 Dánardagur hins rússneska stórskálds Leo Tolstoy var í gær, 20. nóvember. Þá voru nákvæmlega 100 ár frá því að hann lést 82 ára að aldri. Í sínum stærstu ritum Stríð og Friður og Anna Karenina sem og í fjölda trúarrita glímdi Tolstoy við hinar stóru gátur lífsins. Tolstoy barðist gegn rangindum rússnesku ríkiskirkjunnar af miklum krafti. Ein megin áhersla Tolstoys var að benda mönnum á að „Ríki Guðs er að finna hið innra með hverjum manni“ – „Guð er að finna innra með þér“ ….þau sannindi hafa verið boðuð hér í þessari kirkju.

Leo Tolstoy einn virtasti og frægasti hugsuður og rithöfundur allra tíma, sagði eitt sinn:  “Það að leita til Kirkjustofnunarinnar til að fræðast um Guð, er eins og að bera lítið kerti upp að skínandi sólinni á björtum og heitum degi, í þeim tilgangi að geta séð sólina betur”.

Bæði Jesú Kristur frá Nazaret og Marteinn Lúther hinn þýski siðbótarfrömuður sem við kennum kirkjudeild okkar við, voru báðir andstæðingar ríkjandi trúarstofnana sinnar samtíðar. Luther barðist af mikilli hörku, Jesús fór í musterið og velti um borðum víxlaranna.

Látum ekki afturhaldssamar trúarstofnanir ræna Guði frá okkur.

Megum við forðast það óöryggi og þann ótta sem reisir múra aðgreiningar og tortryggni og þann ótta sem leitast við að njörva niður og takmarka fjölbreytileika sköpunarverksins og setja bönd á sjálfan Guð!

Þegar kirkjan er misnotuð þá leita ég Krists handan kirkjustofnunarinnar og handan trúarjátninga, þegar þær eru notaðar til að draga fólk í dilka.  Ég leita Krists handan trúarkenninga, handan útilokandi og þröngsýnnar bókstafshyggju og jafnvel handan trúarbragða, þegar þau eru misnotuð.  Einungis þar mun ásjóna okkar snúa að því undri sem lífið er, að því undri sem lífið er í öllum sínum fjölbreytileika.  Þá mun ásjóna okkar snúa að því undri sem ástin er og því stórkostlega undri sem tilveran er.

Megi kærleikans kraftur hjálpa okkur með þá byltingarkenndu sýn.

Hjörtur Magni Jóhannsson 899-4131

Forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík.