Útvarpspredikun Hjartar Magna Jóhannssonar Fríkirkjuprests 23. nóvember 2014
Predikun HMJ í Fríkirkjunni í Reykjavík, í beinni á RUV 23. nóv. 2014, kl. 11.00.
Eldsumbrot og magnað langvarandi eldgos í Holuhrauni. Sjálf jörðin nötrar og skelfur, grunnur okkar er skekinn og gengur til. Það eru tröllsleg átök í iðrum jarðar. Jörðin spúir skaðlegum brennisteini út í andrúmsloftið í tonna vís á skömmum tíma. Og eiturmagnið virðist aukast. Eldur og brennisteinn. Yfir hálendið rennur stærsta hraun sem runnið hefur frá Skaftáreldum, orðið tvisvar sinnum stærra en Mývatn að flatarmáli. Heimsviðburður, landið tekur verulegum breytingum. Við lifum á jaðrinum, á mörkum hins byggilega heims, við lifum á brúninni.
Ferðamálafrömuðir vilja selja þetta ferðamönnum. En einhvern veginn hefur maður fengið það á tilfinninguna að almannavarnir séu að reyna að koma þeim skilaboðum til þjóðarinnar að þessu sé alls ekki að ljúka, heldur að jafnvel mun meiri náttúruumbrota og átaka megi vænta sem verði ófyrirsjáanleg.
Í nálægð átaka slíkra frumkrafta þá finnum við til okkar eigin vanmáttar og það kemur ekki á óvart að það eru átök innra með okkur mörgum, við hugum að okkar tilvist, okkar stöðu, og tilgangi okkar daglega streðs. Það kemur því heldur ekki á óvart að það eru átök og undirliggjandi ólga í samfélagi okkar. Þar þarf ekki eldgos til.
Hvaða viðmið eigum við að styðjast við í okkar samfélagi, hvernig á í raun að forgangsraða í samfélaginu?
Fríkirkjan hér við Tjörnina, nú 115 ára, í hjarta höfuðborgarinnar, Fríkirkjusöfnuðurinn er með allra elstu trúfélögum í landinu og hefur nú starfað á þrem öldum og félagafjöldinn hefur tvöfaldast undanfarin ár og við teljum nú um 10.000 safnaðarfélaga og áfram heldur fjölgunin. Þær þúsundir sem vilja og hafa kosið að tilheyra Fríkirkjunni, hafa ólíkar flokkapólitískar skoðanir og þess vegna viljum við ekki trúlofast einum flokki. Fríkirkjusöfnuðurinn og kirkjubyggingin hér við Tjörnina, sem er fegursta kirkjustæði landsins, er svo samofinn sögu og þróun Reykjavíkur að þar verður ekki sundur greint. Og hér í kring gerast hlutirnir. Hér handan Tjarnarinnar, í norður, er Alþingi og Austurvöllur þar framanvið. Á Alþingi starfa þeir þjónar sem við almenningur höfum kosið í almennum kosningum til að þjóna okkur, þjóðinni, og lúta okkar vilja. Orðið embættismaður er í raun dregið af forna orðinu ambátt sem merkir sá sem þjónar. En ég held að sá grunnur, þær rætur hafi gleymst.
Austurvöllur hefur undanfarin ár verið vettvangur þjóðar, þar sem hin almenna rödd tjáir sig og lætur í sér heyra, þegar henni er misboðið. Áfram halda mótmælin, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Þjóðin er ekki sátt við forgangsröðun, ungu þjónanna í Alþingishúsinu!
Hér rétt suð austan við Fríkirkjuna er sjálfur Landspítalinn sem sinnir þörfum allra landsmanna. Að byggingu hans og upphafs grunn rekstri kom vissulega Kvenfélag Fríkirkjunnar sem er elsta kirkju-kvenfélag landsins og var voldugt í þá daga og kom að mörgum þeim velferðarmálum er drifu þjóðina áfram á örlagríkum tímum. Landspítalinn sinnir þörfum allra þeirra landsmanna sem eru hvað veikastir fyrir, þar er hlúð að, læknað og hjúkrað. En húsnæðiskosturinn í dag er hrörlegur og jafnvel skaðlegur sumstaðar, bæði sjúklingum sem starfsmönnum. Í öllum þeim fréttatímum sem á okkur dynja daglega er sagt frá verkfalli lækna, það er atgerfisflótti úr starfsstéttum þeim sem á Landspítalanum starfa. Starfsmenn flýja land. Heilbrigðiskerfið virðist svelt og því blæðir. Og það virðist að því sé látið blæða, það er látið veikjast meir og meir. Og þeir sem mest líða fyrir það, á endanum eru þeir sem minnst mega sín, þeir sem eru sjúkir og lasburða, þeir sem eru veikastir fyrir og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.
Allir sem hafa lesið Nýja testamenntið vita að tiltölulega stór hluti guðspjallanna fjallar um veikt og sjúkt fólk, raunir þeirra og það hvernig komið var þeim til hjálpar. Jesús var alltaf umkringdur hinum sjúku og hann stóð alltaf með þeim! Heyrið það! Hann gekk um meðal fólksins læknaði, greindi líkamleg og andleg mein, líknaði, hjúkraði. Honum var mjög annt um líkamlega og aldlega líðan og velferð hinna minnstu bræðra og systra.
Í Guðspjallinu segir Drottinn; Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín.
Þá munu menn segja við Drottinn; Hvenær sáum vér þig þannig? Þá svarar Drottinn: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér og gert mér. Síðan mun hann segja við aðra; Farið frá mér; Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur en ekki vitjuðuð þér mín. Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.
Hér í þessari Biblíu dæmisögu er einfaldlega að finna kjarnann í okkar kristna, íslenska, vestræna, siðferðisgrunni. Okkar æðsta dómara er að finna í okkar allra minnstu bræðrum og systrum. Við hlúum að hinum þurfandi, þeim sem eru minni máttar, þeim sem enga forgjöf fengu í byrjun lífsvegferðar sinnar. Samhygð og náungakærleikur er grunnur þess almenna velferðarkerfis sem er sement þess samfélags sem byggir þetta land, lands ísa og spúandi eldfjalla.
Heilbrigðiskerfinu blæðir illa og það virðist, látið viðgangast. Velferðarkerfið er í húfi. Verið er að ógna innviðum og hornsteini okkar velferðarsamfélags. Hverjir stýra þessu? Og hver er tilgangurinn? Hvað á síðan að vaxa upp af þessu ? það er mun auðveldara og fljótlegra, að brjóta niður en að byggja upp. Mannauður, dýrmæt þekking og reynsla glatast.
Hvað vakir fyrir mönnum? Getur verið að hugmyndin sé að skapa tvöfallt heilbrigðis-kerfi þar sem hinir ríku og félagslega heilbrigðu og sterku geti keypt sér forgang, fram fyrir hina veiku og félagslega vanmáttugu? Að þeir sem eiga nóg af peningum, geti farið fram fyrir þá sem bíða í löngum biðröðum, og borgað sínum uppáhalds læknum vel ríflega fyrir forgangsþjónustu. Að þeir sem eiga og hafa, þurfi bara alls ekki að fara í neinar niðurlægjandi og þreytandi, biðraðir með almúganum.
Að taka eigi upp hið mein gallaða kerfi Bandaríkjanna í heilbrigðismálum. Jesús segir „Ekki þurfa heibrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru (Mk. 2;17) Ef það er undirliggjandi áætlunin, þá leyfi ég mér að fullyrða að það sé í algerri andstöðu við okkar grundvallar siðferðisgildi, í andstöðu við boðskap Jesú Krists og þvert á vilja íslensku-þjóðarinnar. Jesús spurði ekki um efnahag, stétt, stöðu eða flokksskírteini þegar hann læknaði hina sjúku. Jesú sjálfan er að finna í okkar minnstu og vanmáttugustu bræðrum og systrum. Breikkum ekki bilið enn meira, bilið sem er á milli þeirra sem hafa og þeirra sem ekkert hafa, það bil er þegar allt of breitt í okkar litla samfélagi, hættulega breitt, við eigum að brúa þá gjá, ekki breikka hana.
Við boðum ekki kenninguna um helvíti hér í Fríkirkjunni við Tjörnina. Helvíti er ekki til, nema sem hugarástand. Við leitum í vonina, birtuna og fegurðina sem okkar hreyfiafl og drifkraft. En hugmyndin um helvíti og eilífa refsingu var hluti af heimsmynd manna hér áður fyrr. Hún kemur fyrir í guðspjallstextanum sem hér er lagt út frá, þegar Mannsonurinn kemur í dýrð sinni á efsta degi og skilur sauði frá höfrum. Trúarstofnanir hafa lengi notað helvítispredikanir til að hræða fólk til undirgefni og hlíðni.
Jarðeldar, hraunflóð og spúandi brennisteinn, á hálendnu gæti verið hluti af slíku dómsdags táknmáli. Úti í heimi í Sýrlandi og Írak er sem annað hraun renni, það eyrir engum og spúir eldi og brennisteini. Sú myrka hraun vofa, skilur eftir sig kvöl, eyðingu og dauða. Eiturefnið er mun skaðlegra en brennisteinninn hér, það er hatur! Eiturefnið er hatur. Trúaröfgar og ofstækisfullt hatur. Ég er að tala um Ríki Íslams, Ísis Kalifdæmið íslamska, fréttir berast af því oft á dag í okkar fréttamiðlum. Vígamenn þess fara um með óheyrilegri grimmd og voðaverkum. Heimsbyggðin fylgist með. Kalífdæmið virðist vaxa, það höfðar til ungra múslima í Evrópu og þeir virðast hafa óþrjótandi fjármunum og vopnum, yfir að ráða. Framgangan er m.a. réttlætt með tilvísun í blóði drifnar og siðlausar krossferðir hinna kristnu á miðöldum. Hvað er hægt að segja um svona brjálæði. Það er ekki hægt að horfa framhjá þessu. Þeir sem óttast þessa framvindu hafa fullan rétt á að tjá sig um þann ótta.
Víst er að þarna er á ferðinni fyrirbæri sem er í hrópandi mótsögn við, og alger andhverfa kjarna trúarbragðanna, boðskaparins um náungakærleika og samhygð. Eins langt og austrið er frá vestrinu svo langt er þetta frá miskunnar og kærleiksboðskap Íslam, kristni, gyðingdóms, búddisma eða hindúisma. En þegar trúmálum er blandað saman við ættbálkaátök, þjóðerniskennd eða bitur átök menningarheima þá getur útkoman orðið eitruð, baneitruð.
Við þurfum að vera á verði gagnvart þeim sem misnota trúarbrögðin og trúarstofnanir.
Trú manna á æðri mátt hefur í gegnum aldirnar átt stóran þátt í því að móta sjálfsmynd og sjálfsvitund bæði einstaklinga, ættbálka sem þjóðfélaga og heilu menningarsamfélaganna. Æði oft hefur trú manna verið notuð til að aðgreina, skapa fjarlægðir, fordóma og ótta.
Skaðlega bókstafs og ofstækis-trú, er að finna í flestum trúarbrögðum sem og ýmsum veraldlegum kenningakerfum. Oft er hún í bland við þjóðerniskennd eða tengd átökum ólíkra menningarhópa. Slík trú virðir ekki mannréttindi! Í nafni slíkrar trúar hefur víða verið traðkað á mannréttindum og saklausu blóði úthelt. Bókstafs og ofsa-trúarmenn koma óorði á Guð. Í mínum huga eru mannréttindi æðri allri einstrengislegri bókstafsdýrkun og trúar kreddum. Og þar er kærleikans Guð að finna.
Rétt orðaðar trúarjáningar ofstækis eða bókstafstrúar manna hvort sem þær er að finna í kristni eða Islam, vitna um öryggisleysi. Þörfin fyrir að hafa stóra sannleikann í hendi sér, í sínu eina rétta trúarriti, vitnar um tilvistaróöryggi, sem oft fær útrás í miklum hroka og yfirgangi gagnvart öðrum. Jafnvel stríðsrekstri og sjúkleika. Líf Jesú og hans boðskapur var alger andhverfa alls þessa!
Bæði í orðum sínum og verkum leitaðist Jesús við að losa sína samtímamenn, konur sem karla, undan þeim fjötrum sem þröngsýni og afturhaldssamar trúarstofnanir hans tíma heftu menn í.
Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu hér á okkar landi. Bæði gagnvart þeim hefðum sem eru hér fyrir í okkar samfélagi sem og gagnvart nýjum og framandi áhrifum.
Gott fólk ég er ekki að boða útlendingahatur, ég er ekki að ala á fordómum gagnvart öðrum trúarhefðum. Guð er að verki innan allra trúarbragða þar sem kærleiksljósið lýsir veginn.
Við eigum að bera virðingu fyrir útlendingum, innflytjendum og nýbúum. Við eigum að bera virðingu fyrir öðrum trúarhefðum og við eigum að fagna fjölbreytileika mannlífsflórunnar, hún auðgar. En við eigum að krefjast fullra mannréttinda!
Baráttan fyrir mannréttindum hér á landi hefur kostað blóð, svita og tár og þar megum við ekki gefa þumlung eftir, ekki einn stafkrók. Við viljum ekki láta sem sú barátta hafa ekki átt sér stað. Við viljum hvorki láta ógilda hana né vanvirða. Við viljum ekki þann boðskap sem boðar mismunun kynjanna og fordóma gagnvart vissum samfélagshópum. Við viljum ekki þá aðila sem stuðla að gettómyndun í okkar samfélagi. Við viljum ekki þá samfélagshópa sem vilja færa okkur aftur til myrkra miðalda hvað samfélagsgerð varðar, hvað stjórnarfar varðar, hvað heimsmynd varðar. Ég tel að einmitt hér sé að finna undirliggjandi ótti margra íslendinga. Við eigum ekki að vera feimin við að hafa orð á þessu. Við eigum ekki að vera sem saklausir einfeldningar sem valda síðari tíma vanda. Við eigum að tjá okkur um þetta á opinberum vettvangi og forðast allar öfgar og ofstæki. Þetta hef ég sagt áður úr þessum predikunarstól.
En það er fleira sem ég trúi að við viljum ekki sjá hér í okkar samfélagi. Það er eitruð blanda þjóðernishyggju og kristindóms þar sem lagst er gegn innflytjendum og fjölmenningu. Uppgangur hægri öfgaflokka eða þjóðernis-popúlista í Evrópu hefur verið nokkuð mikill undanfarin misseri. Þar er kristindómi stillt upp sem andstæðu Islam í pólitískum tilgangi og ríkiskirkjur jafnvel notaðar sem stjórntæki. Til þess eru ríkiskirkjur, líka hér á Íslandi. Þá snýst hlutverk kjunnar ekki í raun um Guðs-dýrkun, heldur stofnunar-dýrkun, og um hagsmunavörslu. Og þá gerast hættulegir öfgamenn sem og tækifærissinnar, kristnir, á fölskum forsendum.
Þetta er hættuleg blanda og færir okkur aftur til myrkra miðalda í hugsunarhætti. Þó svo að þegar megi greina viss merki þessarar samsetningar hér á landi þá trúi að við viljum ekki sjá slíkt í okkar samfélagi.
En í ljósi þess sem er að gerast í hinum Íslamska heimi þá viljum við fá að vita hvaða boðskapur er eða verður fluttur í íslenskum Moskum. Við megum og eigum að hafa væntingar um að innflytjendur læri okkar tungumál og aðlagist okkar samfélagi. Við viljum ekki gettó eða einöngruð samfélög. Boðskapur Búdda, Jesú og Múhammeðs fjallar um kærleiksrík samskipti ólíkra.
Samkvæmt boðskap Jesú er ekki hægt að iðka trú í einangrun frá öðrum því trúin er í eðli sínu samskipti við annað fólk – samkvæmt Jesú frá Nasaret! Hans boðskapur snerist um dagleg samskipti fólks sem kom úr ólíkum áttum, samskipti fólks af ólíku þjóðerni með ólíka trú og af ólíkum samfélagsstigum. Hans boðskapur var róttækur og byltingarkenndur.
Ég vísa hér í orð heimsfrægra og merkra kristinna trúarleiðtoga sem hafa látið mannréttindi til sín taka, og unnið stóra sigra fyrir hönd þúsunda ef ekki milljóna á því sviði, menn svo sem Erkibiskupinn Desmond Tutu í Suður Afríku og Bandaríska Biskupinn John Spong sem segja; Guð er ekki kristinn, Guð er ekki gyðingur, Guð er ekki muslimi, ekki Hindúi né Búddisti. Allar þessar trúarhefðir eru mannleg sköpun, mannleg kerfi, sem menn hafa mótað í viðleitni sinni til að nálgast þann leyndardóm sem er okkar æðri máttur. Ég heiðra mína kristnu trúarhefð, ég fylgi og lifi eftir henni. En ég trúi ekki að mín kristna trúararfleifð “skilgreini Guð” endanlega. Okkar kristna trúararfleifð vísar okkur aðeins í áttina til hans. Þetta er mín auðmjúka játning. Og á þessum forsendum verðum við að nálgast samferðafólk okkar.
Nú stend ég hér í predikunarstólnum í Fríkirkjunni við Tjörnina og flyt ykkur predikunar orð í beinni útsendingu a.m.k í 17. sinn. Á hálendinu spúir jörðin áfram eldi og brennisteini og víða brenna litlir eldar í okkar samfélagi, svo er innan pólitískra flokka, meðal þeirra sem hafa verið ranglæti beittir, innra með okkur sjálfum og innan Alþingis hér á mína hægri hönd. Ungir metnaðarfullir þjónar okkar á Alþingi vilja sanna sig og sýna hversu máttugir þeir eru. En þeim er ætlað að þjóna, þjóna almannahagsmunum. Við viljum ekki að innviðum, grunn stoðum og hornsteinum okkar almanna heilbrigðiskerfis sé fórnað fyrir sérhyggju og sér hagsmuni. Slíkt er glapræði.
Ekki síst í ljósi válegra og hatursfullra heimsviðburða undanfarinna mánaða, þá viljum við að innflytjendur, viðurkenni, lifi eftir og í anda þeirra mjög svo dýru mannréttinda-sigra sem unnist hafa í okkar siðmenningu og viðurkenni þá í sinni eigin boðun og framgöngu.
Guðspjallið segir að við verðum dæmd á efsta degi eftir framkomu okkar við okkar minnsta bróður eða systur; Og hvar er okkar minnstu systur eða bróður að finna?
Hann, hana getur verið að finna hér vinstra megin við mig á sjálfum Landspítalanum í; fátæka sjúklingnum sem þarf dýra meðferð. Okkar minnsta bróður eða systur getur verið að finna í pólsku innflytjendunum sem látnir eru þrífa gólf, klósett og veggi Landspítalans á ómannúðlegum, kjörum og aðstæðum. Hann getur verið útlendingurinn sem fékk rangláta meðferð. Okkar minnsti bróðir, eða systir getur verið sá sem samfélagið dæmir ranglega. Hún, hann getur verið trúlaus, kristinn, múslimi, gyðingur, búddisti, þekktur eða óþekktur, tilheyrandi þessum flokknum eða hinum.
Framgöngum í trú, von og kærleika. Krefjumst jafn-réttis og rétt-lætis berjumst fyrir mannréttindum og gefum þar ekkert eftir. Þá hefur Guð stórkostlegar fyrirætlanir í hyggju fyrir okkur og hann vill veita okkur af lífsins nægtum, langt umfram það sem við sjálf þorum að vona eða vænta. Dýrð sé þeim Guði sem er og verður….
Hjörtur Magni Jóhannsson
Fríkirkjuprestur við Tjörnina