
Hádegistónleikar fimmtudaginn 9. október kl.12
Fyrstu hádegistónleikar vetrarins verða næstkomandi fimmtudag, 9. október.
Flutt verða íslensk og erlend þjóðlög.
Flytjendur eru Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzo-sópran og Guðrún Dalía Salómonsdóttir, píanóleikari.
Tónleikarnir eru tileinkaðir Bylgju Dís Gunnarsdóttur, sópransöngkonu en hún lést 3. september síðastliðinn.
Þjóðlög hafa alltaf heillað þær Sigríði Ósk og Guðrúnu Dalíu. Þær hafa sett saman dagskrá sem inniheldur grípandi og falleg þjóðlög sem tengjast ást konu á mismunandi æviskeiðum. Má þar nefna móðurástina sem kemur fram í gullfallegum vöggukvæðum, nýja ást, ástarsorgina og söknuðinn. Við heyrum raddir kvenna m.a. frá Íslandi, Spáni og Englandi.
Á dagskrá eru einnig tvö bænalög. Kaddish eftir Ravel en lagið er tileinkað þeim látnu og lagið The last rose of summer útsett af B. Britten. Lagið verður flutt með íslenskum texta eftir Pál Óskar Hjálmtýsson og Brynhildi Björnsdóttur og heitir Með bæninni kemur ljósið.
Lögin á dagskránni eru útsett og samin af sígildum tónskáldum eins og Jóni Ásgeirssyni, Manuel De Falla, Ferdinand Rauter, Benjamin Britten og Maurice Ravel.
Tónleikarnir fara fram í Fríkirkjunni við Tjörnina og eru hluti af tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og taka um hálfa klukkustund.
Aðgangseyrir 2.000 kr.
Ath. ekki er tekið við greiðslukortum en hægt verður að fá millifærslumiða í afgreiðslu.