DJASSMESSA, sunnudaginn 29. september kl. 20
Franklin Graham er tíðrætt um syndina. Hann talaði mikið um syndina í Kastljósi í gærkveldi og í Mbl viðtali í dag virðist syndin vera megin kjarninn í hans boðskap. Orðið kemur fyrir a.m.k. 15 sinnum í ólíkum myndum.
Syndin er ekki aðal atriðið í boðskap Jesú Krists.
Jesú Kristur leggur mikla áherslu á manngildið.
Franklin Graham kemur ekki til landsins í kristilegri auðmýkt. Hann telur sig sjálfan sendiboða hins eina sanna guðs, hann einn virðist hafa lausnina á okkar syndavanda og það byggir hann á sinni einstrengislegu bókstafs biblíutúlkun. Stutt er síðan fjölmiðlar birtu viðtal við íslamskan trúarleiðtoga í íslenskri mosku hér í Reykjavík, þar sem finna mátti sömu bókstafstrúna og sömu fordómana en trúarritið var Kóraninn og hinni eini sanni guð var Allah.
Skaðlega bókstafstrú er að finna í flestum trúarbrögðum. Bókstafstrú virðir ekki mannréttindi. Í nafni bókstafstrúar hefur víða verið traðkað á mannréttindum og saklausu blóði úthelt. Bókstafstrúarmenn koma óorði á Guð. Í mínum huga eru mannréttindi æðri allri einstrengislegri bókstafsdýrkun og trúar kreddum. Og þar er kærleikans Guð að finna.
Djassmessa í Fríkirkjunni í Reykjavík
Sunnudagskvöldið 29. september kl. 20
Vonin fellst í víðsýni.
Friðarstund án fordóma.
Hugljúf kvöldstund með ljúfum djasstónum við
kertaljós og hugleiðingu.
Sönghópur Fríkirkjunnar leiðir sönginn ásamt djasstríói
skipuðu þeim Ásgeiri Ásgeirssyni á gítar,
Tómasi R. Einarssyni á kontrabassa og
Gunnari Gunnarssyni á píanó.
Allir hjartanlega velkomnir.
Athugið:
Engin guðsþjónusta verður kl.14 þennan dag.