Hús dugandi dygða.

Skyldi vera til hús
umburðarlyndis og víðsýni,
þar sem mannréttindi eru sett ofar
máttlitlum kreddum og dyggri trú á
bókstaf og bábylju?

Skyldi vera til hús
þar sem er hugur, vilji og geta
til að samsama sig á vettvangi fyrir allar trúariðkanir,
og sömuleiðis þá sem ekki trúa?
Þar sem fagnað er til jafns; efahyggju, húmanisma,
endurskoðunarsinnum, unitaristum, fríþenkjurum og guðleysingjum?

Skyldi vera til hús
opið hverjum þeim sem hneigist til
samkyns, gagnkyns eða er kynjaður á enn annan hátt í fjölbreyttri flóru mannlífs?

Skyldi vera til hús
sem hefur og hafði hugrekki og kærleika að vigja til sambúðar samkynhneigða til jafns við gagnkynhneigða og hverja þá sem vilja láta blessa yfirlýsingu um sambúðsín í milli?

Skyldi vera til hús
haganlega byggt úr timbri – fagurt að utan sem innan,
með góðan ómtíma – sem heldur vel utan um söng og hjóðfæraleik
sem og talað orð?  Býður upp á gott pípu-orgel sem hljómað getur jafn vel í allt að þúsund viðstöddum eyrum – hvar sem þau eru staðsett í kirkjuskipinu?

Ég svara því til að fenginni reynslu; já, þetta hús er til.
Það er Fríkirkjan í Reykjavík og þetta samfélag er til, sem er söfnuður
Fríkirkjunnar í Reykjavík.   Þetta er hús dugandi dygða.

Kjarval sagði margt merkilegt og göfugt.
Í litlu kveri , Grjót” sem hann skrifaði og gaf út
1930, segir; ,,Því enginn sem ekki er fær um að gera eitthvað fyrir hið ósannanlega er algildur borgari”

Það má vera að við séum í dag orðin viðskila við hugtök eins og ,,algildur borgari”. En hitt hefur ekki breyst, sem er innbyggð viðleitni allra; að vilja leggja sitt að mörkum til samfélags, til lífsins og gera eitthvað fyrir hið ,,ósannanlega”. Það er, með öðrum orðum, að duga með hugrekki, hógværð, kærleika, gjafmildi, þolinmæði, veglyndi, tryggð og réttlæti.

Og þó samfélag okkar hampi oft á tíðum þeim sem gera aðför að öllu því ,,ósannalega” í félögum sem vilja helst elta ólar við að miljónfalda hagsæld til útdeilingar fyrir fáeina útvalda, er þeim mun mikilvægara að lögð sé rækt við öll hús og samfélög sem vilja upphefja hið ,,ósannanlega”.  Þar er að finna raunverulega farsæld og veg sem betrar manninn og styrkir og býr jafnframt til stólpa að máttugra samfélagi.

Í anda hins fríþenkjandi, skrifa ég þessi orð, ég geri það í auðmýkt og þakklæti við fólkið sem ég ann, samfélag sem upplýsir mig og ekki síður í þakkarskuld við tunguna og hjartað, sem stundum ræður för og himininn sem vitnar flest ef ekki allt.

Á okkar tímum er fengur að Fríkirkjunni í Reykjavík – þar sem hrein viðleitni og ábyggilegur vilji er til að vinna margvisst í þágu hins ósannanlega.  Á tímamótum óska ég Fríkirkjunni í Reykjavík til hamingju með 120 ára afmælið. Ég vona jafnframt að safnaðarstarfið  í kirkjunni verði áfram um formerki víðsýni og réttlætis og að í því húsi hefji sérhver sig ævinlega yfri dalverpi bókstafs og kreddu.

Að duga í kærleika daglangt,
dygðin er vís og töm.
Af veglyndi er vitið gjöfult
og viskan því rík og söm.

Egill Ólafsson (Reykjavík, á gormánuði, 2019)