Homo Sapiens og jörðin. Predikun séra Hjartar Magna í útvarpsmessu 1.nóvember 2020

Predikun flutt í Fríkirkjunni í Reykjavík. Útvarpað á RUV. Prestur Hjörtur Magni Jóhannsson
Allra heilagra messa 1. nóv. 2020.  Matteusarguðspjall kafli 5, vers 1-12, sæluboðin.

Homo Sapiens og jörðin

Við lifum á furðulegum tímum! Nú 2020 árum eftir Jesú Krist, á fyrri hluta 21. aldarinnar hefur hinn viti borni maður, Homo Sapiens náð verulega langt. Maðurinn er eina lífveran í sögu þessarar plánetu sem hefur breytt gangi lífs, ekki einungis lífs mannkyns heldur alls lífs á jörðu, alls vistkerfisins og virðist nú kominn í þá einstöku en um leið furðulegu stöðu að hafa örlög lífs á jörðu í hendi sér. Homo Sapiens hefur náð að gera sjálfa jörðina sér nokkuð undirgefna og hefur nú um nokkurn tíma notið þess að drottna yfir henni og dregið mikinn auð frá henni.  Hinum vitiborna manni hefur næstum tekist að gera hið ómögulega þ.e. náð að sigrast á öllu því sem áður ógnaði og hélt honum niðri.  Okkur hefur tekist að gera náttúruöflin ógnvæglegu og óútreiknanlegu þ.e. hungursneyðir, náttúruhamfarir, styrjaldir og vonandi plágur og farsóttir, að svona nokkuð viðráðanlegum áskorunum. Allt mun þetta kosta okkur eitthvað en við munum sigrast á öllu þessu að lokum, því trúa sumir.

Í dag deyja fleiri af völdum ofáts en vegna hungurs, fleiri látast af völdum öldrunar en vegna farsótta eða plága þrátt fyrir Covid 19. En hinn drottnandi vitiborni maður er ekki ánægður, ekki hamingjusamur. Tíðni sjálfsvíga er ótrúlega há um heim allan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að í heiminum taki um milljón manns sitt eigið líf, á ári hverju.  Það þýðir að sjálfsvíg á sér stað einhverstaðar á 40 sekúnda fresti. Nú er svo komið að þeir sem falla fyrir eigin hendi eru orðnir fleiri en þeir sem falla í stríðsátökum, fyrir hendi hryðjuverkamanna og glæpamanna allt til samans.  Eitthvað mikið er að!

Tvær ógnir

Það vantar eitt stórt púsl inn í þá víðu mynd sem hér hefur verið dregin upp. Maðurinn hefur jú komið ýmsu í verk en stefnir því öllu í voða með græðgi sinni og ábyrgðarlausri drottnandi hegðun.   Það eru tvær risa ógnir sem steðja að mannlegum samfélögum hér á jörðu.  Annarsvegar er það loftslagsváin sem er af manna völdum og ógnar öllu lífríki á jörðinni. Hins vegar er það Covid plágan sem við nú flest öll fylgjumst með frá degi til dags og er að öllum líkindum einnig af manna völdum. Ekki að veiran hafi verið búin til á kínverskum tilraunastofum heldur hafa vísindamenn  áratugum saman varað við því að hnattræn hlýnun af manna völdum geti leitt til þess að veirur og faraldrar verði tíðari. Maðurinn hefur lagt undir sig búsvæði dýra víða um heim. Þrengri búsvæði auka samgang milli ólíkra dýrategunda, dýr flytja sig á ný svæði, farfuglar fljúga annað, fiskgegnd breytist.  Ólíkar tegundir bera veirur og sýkla hver í aðra og það geta orðið til nýjar óværur, sem Covid.

Stefnuræður

En þrengjum nú aðeins sjónarhornið.  Guðspjall dagsins er einskonar stefnuræða Jesú Krists. Hverskonar leiðtoga viljum við hafa?  Fermingarbörnin um land allt eru spurð; „Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“  Hvernig leiðtoga viljum við hafa?  Ég tel það nokkuð víst að Jesús frá Nazaret myndi aldrei bjóða sig fram hvorki til forseta né í þingkosningum, hann væri alltaf í stjórnarandstöðu hvað varðar hið veraldlega vald.  En talandi um stefnuræður og leiðtoga þá eru stefnuræður fluttar víða.  Alþingiskosningar verða hér á landi, á næsta ári.  Síðan í Bandaríkjunum, einu voldugasta ríki veraldar munu örlagaríkar forsetakosningar, leiðtogakjör fara fram eftir aðeins tvo sólarhringa. Heimsbyggðin hefur fylgst með farsakenndum aðdragandanum. Mikið er í húfi fyrir alla heimsbyggðina. Ótal stefnuræður hafa verið fluttar, samsæriskenningum og falsfréttum dreift jafnvel frá æðstu embættum.

Það er ýmislegt á hinu pólitíska sviði sem virðist beinlínis hannað til að vekja ótta, óeiningu og fordóma milli ólíkra samfélagshópa og það er gert með samsæriskenningum, falsfréttum, beinum lygum sem jafnvel sjálfir valdhafarnir dæla út í samfélagið.  Villa þannig um fyrir fólki og grafa þannig undan lýðræðinu.

Popúlismi – nei takk.

Popúlismi – það vantar gott íslenskt orð yfir þetta hugtak, sýndarstjórnmál, lýðhyggja eða jafnvel lýðskrum er þetta kallað en virðist þó komið til að vera í stjórnmálum og virðist sum staðar á uppleið.  Í stjórnmálafræði er talað um popúlisma sem hugmyndafræði sem skiptir samfélaginu í tvennt, tvo hópa sem standa andspænis hvor öðrum. Annarsvegar er það  „við – góða fólkið“ og hins vegar er það ekki aðeins andstæðingur með ólíkar skoðanir heldur „óvinur“ sem þarf að losna við eða ganga frá með einhverjum hætti.

Aðferðafræðin er einföld, popúlisminn, lýðskrumið gerir yfirleitt vart við sig þegar einhverskonar kreppa er í samfélaginu, óvinurinn, oft útlendingurinn – er fundinn eða búinn til, honum kennt um allt sem miður fer, pólitískir andstæðingar hugmyndafræðinnar eru útmálaðir sem óvinir og svikarar og einungis popúlistinn sýndarstjórnmálamaðurinn einn, getur bjargað málum. Mörg dæmi eru nú um það að þetta ferli grafi undan hefðbundnu lýðræði og leiðir til forræðishyggju.

Hugmyndafræðina má rekja aftur til fyrri hluta síðustu aldar sem var einn al dimmasti tími mannkynssögunnar þar sem fasismi, nasismi í bland við þröngsýna þjóðernisstefnu réðu lögum.

Populistinn veigrar sér ekki við að nota kristna trú sem tæki til aðskilnaðar og sundrungar. Populistinn gerir sig, óumbeðinn, sjálfskipaðan varðmann og verndara kristinnar kirkju til að halda „hinum“ langt í burtu t.d. Múslimum, Gyðingum eða bara öllum útlendingum og utanaðkomandi sem eru „hinir“- innan gæsalappa, þ.e. óvinirnir.   Nei takk, Nei takk.  Það þarf að vara við þessari skaðlegu, ókristilegu og þröngsýnu hugmyndafræði.

Leiðtogar

Leiðtogar tveggja einna stærstu ríkja heims eru sem holdgervingar þessa skaðlega populisma, lýðskrumsins þ.e. forsetar Bandaríkjanna og Brasilíu. Báðir hafa þeir markvist hindrað og beinlínis staðið í vegi fyrir allri viðleitni alþjóðasamfélagsins við að bregðast við umhverfisvánni sem og Covid 19. Með því hafa þeir valdið heiminum okkar ómældu tjóni.

Við þurfum ábyrga leiðtoga sem takast á við þá tvíþættu aðsteðjandi vá sem ógnar okkur öllum.  Ábyrga leiðtoga sem sameina í stað þess að sundra, sem byggja brýr gagnkvæms skilnings og samhygðar í stað þess að ala á óvild og tortryggni, því einungis sameinuð og með samstilltu alþjóða átaki getum við sigrað.

Ég trúi því að við Íslendingar megum vera og séum þakklát fyrir það hvernig íslensk stjórnvöld hafa tekið á Covid faraldrinum, í traustu samstarfi við þá fagaðila sem best til þekkja, lýðræðisleg og gagnrýnin umræða fylgir hverju skrefi sem tekið er og þannig á lýðræðislegt samfélag að vera.  Það er lofsvert og alls ekki sjálf gefið. Við höfum valið okkur trausta og góða leiðtoga á Alþingi Íslendinga og ég trúi því að við munum einnig gera það í alþingiskosningunum á næsta ári.

Sæluboðin – hin víða sýn

Guðspjall dagsins er úr fjallræðu Jesú, sæluboðin, einskona stefnuræða Jesú Krists. Til að meðtaka boðskap fjallræðunnar þá þurfum við að tileinka okkur víða sýn, ekki þrönga, hann boðar von en ekki ótta, frið en ekki óvild, hann boðar samfélag ólíkra ekki aðskilnað,  ljós en ekki myrkur. Við þurfum að tileinka okkur víða sýn.

Í sæluboðum Jesú erum við öll á sama báti, óháð þjóðerni eða skaðlegri þjóðernishyggju, óháð trúarbrögðum, kyni eða kynhneigð, hann, hún, hán, óháð litarhætti, óháð útliti eða efnahag. Sælir eru friðflyjendur.

(Tónlist –  Imagine, e. Yoko Ono og John Lennon, friðarsúlan lýsir upp í himininn úti í Viðey, John Lennon 80 ára.  Textinn í þýðingu Þórarins Eldjárn, Að hugsa sér;  Að hugsa himnaríki og helvíti ekki til aðeins jörð og himinn það er auðvelt ef ég vil. Að hugsa að allir lifðu og hrærðust hér og nú. Hugsaðu þér, hvergi nein landamæri lögð, að drepa og deyja fyrir, né deilt um trúarbrögð.  Já, hugsaðu þér heiminn  halda grið og frið.  Mér er sagt ég sé með óra en ég er ekki einn um það.  Já, komdu með, við höldum hópinn  gerum heiminn að  griðastað.  Að hugsa sér ef engar eignir væru til, græðgi og hungur horfin, hvergi ranglátt spil.  Að hugsa öll gæði heimsins og jarðar deilast jafnt.   Mér er sagt ég sé með óra en ég er ekki einn um það.  Já, komdu með, við höldum hópinn,  gerum heiminn að einum stað).

Lífið á jörðinni, sjálft vistkerfið er komið í yfirsnúning og það er af okkar völdum,  það er ógnvænleg staðreynd.

Af jörðu ertu kominn

Það átti aldrei að vera okkar hlutverk að drottna yfir lífríkinu það er ekki okkar að gera jörðina okkur undirgefna.  Við erum hluti af lífríkinu og við erum öll jarðarbúar, eins mörg og ólík og við erum þá erum við börn jarðarinnar. Við erum komin af móður jörð, hún ól okkur, í sínum faðmi nærir hún okkur hvert og eitt og afkomendur okkar, frá degi til dags, og til hennar munum við öll, hvert og eitt einasta okkar, aftur hverfa þegar þar að kemur. En jörðin grætur yfir framferði okkar.

Við erum hér saman komin í Fríkirkjunni í Reykjavík, niður við tjörn. „Af jörðu ertu kominn.  Að jörðu skaltu aftur verða. Og af jörðu skaltu aftur upp rísa“.    Þessi orð hef ég yfir í hvert sinn sem ég jarðsyng hér í Fríkirkjunni. Hér fara fram margar jarðafarir þar sem ástvinir kveðja hinn látna í hinsta sinn.  Í dag er allra heilagra messa og síðan allra sálna messa.  Þetta er arfleifð frá kaþólskunni en það er öllum nauðsynlegt að minnast og heiðra minningu þeirra sem við höfum misst, tendra ljós í minningu þeirra, fara út að leiði og eiga þar stund.  „Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða“.

Sameiginlegt öllum helstu trúarbrögðunum

Það að syrgja, sakna og ganga í gegnum sorgarferli er sameiginlegt öllum mönnum, konum sem körlum, honum, henni og háni, óháð menningarsvæðum, ólíku þjóðerni, tungumálum eða trúarbrögðum.  Í öllum helstu trúarbrögðunum heims gyðingdómi, okkar kristni, islam, hindúisma og búddisma er gert ráð fyrir slíku ferli, ákveðnir dagar, tilteknir siðir, sérstakar hefðir og ferlar. Margt ólíkt og fjölbreytilegt en helgast allt af þessu sameiginlega hlutskipti okkar allra andspænis dauðanum.  Það sem sameinar okkur öll börn jarðar er mennskan og dauðleikinn. Á allra heilagra messu minnumst við látinna ástvina. Um leið hugum við að okkar eigin forgengileika og að sameiginlegu hlutskipti alls mannkyns hvað það varðar.

Sæluboðin eiga við í dag, í núinu en vísa einnig fram á við, þau eru hin þversagnarkenndu viðmið, markmið, fyrirheit sem viðhalda voninni í þrengingum og í sorginni; þau kunngera þær blessanir og þá umbun, þótt hún sé ekki alltaf sýnileg, sem lærisveinar Krists eiga nú þegar en vonast einnig eftir að fá að upplifa. Ótal sinnum hefur verð vitnað í og vísað til sæluboðanna í klassískum listaverkum og heimsbókmenntum.

Sömu gildi er einnig að finna í gyðingdómi og islam. Indverski hindúinn og friðarsinninn Mahatma Gandhi dáðist að sæluboðum Jesú. Og vissulega má finna tengingar við búddisma og m.a. hefur Dalaí Lama andlegur leiðtogi Tíbeta og Búddista víða um heim bent greinilega á það.  Áherslan á hógværð, réttlæti, miskunnsemi, það að vera hjartahreinn, einlægni hjartans,  áherslan á frið er sameiginleg öllum stóru trúarhefðunum og siðaboðskap þeirra.  Það þynnir ekki út eða dregur úr vægi boðskaparins heldur þvert á móti eykur vægið, gefur mun víðari skírskotun.  Það er ekki hættulegt að kynnast þeim sem játa aðra trú og lifa eftir framandi sið.  Ef þú þekkir vel þína eigin trúarhefð þá er engin hætta, því þegar þú kynnist hinu fagra í t.d. búddisma eða hindúisma, þá tengir þú við það, við hið sama í þinni eigin kristnu trúarhefð og í ljós kemur að kjarninn, grunn þræðirnir eru hinir sömu. Það breytir gífurlega miklu þegar þetta verður ljóst! Og þess vegna er það svo mikilvægt að trúarbrögðin séu ekki notuð til aðgreiningar, útilokunnar eða til að skapa ótta og fordóma.

Flest eiga trúarbrögðin þúsund ára gamlar hefðir og helgar sögur sem túlka stöðu mannsins í heiminum og tengja okkur með yfirveguðum siðaboðskap sínum, við móður jörð og hvert við annað.

Við skuldum börnunum

Við skuldum börnum okkar það að vinna saman að því að láta farsælt líf viðgangast, dafna og blómstra.  En það er aðeins með hinni breiðu og víðu sýn sem við munum ná árangri.  Hin þrönga sýn aðgreiningar, fordóma og útilokunnar mun leiða okkur til glötunar.

(Tónlist – hér þurfum við uppörvun „Upp, upp mín sál og allt mitt geð“ e. H.P.)

Fögnum

Fögnum og gleðjumst yfir fjölbreytileika lífs á jörðu. Það er margt sem getur fyllt mann von og bjartsýni.  Bæði mannkynssagan og hin fornu trúarrit trúarbragðanna sýna okkur að plágur hafa aldeilis komið og síðan farið! Það er einstakt í mannkynssögunni  sögu Homo Sapiens eins og við þekkjum hana, að mannkyn geti nú í raun í fyrsta sinn sameinast, samstillt krafta sína gegn aðsteðjandi ógn sem ógnar öllum jafnt.  Þetta er nýtt og óvenjulegt. En einnig spennandi og býður upp á margvíslega möguleika. Vonandi mun heimsfaraldurinn virka sem stökkpallur til þess að breyta lífsvenjum fólks, hagkerfum til góðs fyrir lífríki jarðar.

Margt jákvætt

Covid 19, hefur dregið úr loftmengun á heimsvísu!  Íbúar margra stórborga anda nú léttar, bókstaflega. Talið er að loftmengun valdi átta milljónum dauðsfalla í heiminum á hverju ári!  Talið er að stórminnkuð loftmengun, þökk sé Covid, hafi komið í veg fyrir tugþúsund ótímabær dauðsföll!  Hvers vegna er þetta ekki í fréttum?  Áhrif faraldursins á loftmengun sýnir þann toll sem óbreytt ástand í mengunarmálum tekur, en fáir gefa gaum!

Viðbrögðin við Covid sýna hvað hægt er að grípa til afdrifaríkra aðgerða á stuttum tíma ef viljinn er fyrir hendi – aðgerðirnar sem ráðist hefur verið í, eru að mörgu leyti svipaðar þeim sem þarf að ráðast í, til að sporna gegn loftslagsvánni.

Viðbrögðin sýna líka fram á aðlögunarhæfni almennings sem víða hefur kollvarpað lífsháttum sínum á örfáum dögum, aftur og aftur.  Þetta er hægt! Þó það sé erfitt!  Plágan gæti verið tækifæri fyrir mannkyn til að æfa sig í loftslagsvænni lífsháttum.  Við þurfum andrými til að endurhugsa fjármálakerfið þannig að það virki til framtíðar og efnahagurinn geti blómstrað án neikvæðra loftslagsáhrifa. Við þurfum að átta okkur betur á þessum heimi sem við búum í; Hvernig allt tengist og hvernig kerfin sem þurfa að breytast verulega,  þurfa að virka lífríkinu og andrúmsloftinu, móður jörð, til góðs.  Ógnirnar tvær geta verið tækifæri til þess að efla samvinnu og samhug þvert á menningarheima, trúarbrögð og landamæri þjóða. Vinnum að því saman, því það er okkar siðferðislega kristna skylda.

Sælir eru hógværir

Drottinn okkar og leiðtogi Jesús Kristur segir;  Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Homo Sapiens þarf að friðmælast við móður jörð og af hógværð en ekki hroka, að kjósa sér leiðtoga sem sameina í stað þess að sundra, tileinka sér víða sýn, ekki þrönga, sem boða von en ekki ótta, frið en ekki óvild, sem boða samfélag ólíkra ekki aðskilnað, ljós en ekki myrkur. Þá, þá munum við öll jörðina erfa!