
Hádegistónleikaröðin “Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni” fimmtudaginn 27. apríl kl. 12
Hljóð í þögninni – hádegistónleikar
Fimmtudaginn 27. apríl munu Kristín Þóra Haraldsdóttir og Laufey Sigrún Haraldsdóttir leika verk eftir Arvo Pärt og John Cage fyrir víólu og píanó á hádegitónleikum í Fríkirkjunni.
Yfirskrift tónleikanna vísar í það, hvað þögnin er þeim báðum hugleikin. Pärt leitar að augnabliks “þögn” í einfaldleika tóns og Cage hvatti til hlustunar á þögnina, að heyra að hún er í raun ekki til, heldur má heyra tónlist í öllum hljóðum.
Nálgun þeirra og tónlist er af ólíkum toga en eiga þeir það sameiginlegt að tónlistariðkun þeirra var og er nátengd þeirra andlegu iðkun og leitinni að innri kyrrð og einingu í erilsömum og flóknum heimi, en Arvo Pärt segir:
Bjölluhljóman (e. Tintinnabulation) er svæði sem ég reika stundum inn á þegar ég er að leita að svörum – í lífi mínu, tónlistinni, vinnunni minni. Á mínum dimmu stundum hef ég þá ákveðnu tilfinningu að allt fyrir utan þetta eina hafi enga merkingu. Hið flókna og margþætta ruglar mig aðeins og ég verð að leita að einingu.
Efnisskráin samanstendur af verkum sem fanga þetta andrúmsloft sem Arvo Pärt lýsir.
Aðgangseyrir 2.000 kr, 1.500 fyrir eldri borgara og öryrkja.
Ath. ekki er tekið við greiðslukortum.
Hjólastólaaðgengi er á hlið kirkjunnar.