Fermingarundirbúningur 2013
FERMINGAR Í FRÍKIRKJUNNI VIÐ TJÖRNINA
Kæru félagar í Fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík.
Ástæða þessa bréfs er sú að samkvæmt okkar upplýsingum býr á heimili ykkar
ungmenni sem fætt er árið 1999 og verður því á fermingaraldri að vori 2013.
Með bréfi þessu viljum við kynna fyrir ykkur fermingarstarf Fríkirkjunnar, með von um að þið sjáið ykkur fært að taka þátt í því.
Fermingarfræðsla Fríkirkjunnar hefst mánudaginn 13. ágúst og stendur til og með 17. ágúst.
Helstu kostir fermingarskólans eru:
• Samþjöppuð kennsla – minni röskun yfir veturinn.
• Aðrir valkostir í boði.
• Fermingardagur að eigin vali – þó innan vissra marka.
• Fermingarfræðslan er ykkur kostnaðarlaus!
Dreifð búseta.
Fermingarskólinn er svar safnaðarins við dreifðri búsetu safnaðarfólks.
Fermingarskólinn er starfræktur síðustu vikuna fyrir setningu grunnskólanna, koma þá nemendur daglega til safnaðarheimilisins og njóta þar fræðslu.
Yfir veturinn koma þau í fræðslu einn sunnudagsmorgun í mánuði og til kirkju 10 sinnum sunnu- og helgidaga.
Farið í tveggja daga fermingarferðalag. Einnig taka fermingarungmenni virkan þátt í helgihaldi um jól og páska ásamt almennum guðsþjónustum safnaðarins.
ÞAU SEM EKKI GETA NÝTT SÉR SAMÞJAPPAÐA KENNSLU Í ÁGÚST,
BJÓÐAST AÐRIR MÖGULEIKAR UM ÁRAMÓT EÐA AÐ VORI.
Kennslugjöld eru engin.
Engin kennslugjöld eru innheimt. Auk þess, sem svokölluð kyrtlaleiga fellur niður. Fermingarbörnin þurfa þó að kaupa kennslugögn vegna fermingarfræðslunnar.
Jafnaldrar velkomnir.
Eigi fermingarbarnið góða vini, – vinkonu, frænda eða frænku, sem einnig eiga að fermast, þá eru þau velkomin. Vilji börnin fermast saman þá gerist það á þeim degi, sem fjölskyldurnar koma sér saman um og í samráði við safnaðarprest.
Frjálst val á fermingardegi.
Þið fjölskyldan, getið valið hvaða dag barnið fermist ef áætlaðir fermingardagar henta ekki, þó innan ákveðinna marka. Vegna stærðar Fríkirkjunnar við Tjörnina er hægt að bjóða ættingjum og vinum til fermingarinnar í kirkjunni en ekki eingöngu til veislunnar, eins og gjarnan er gert. Færri fermingarbörn fermast í einu og fær athöfnin því meira vægi í hugum flestra og persónulegri blæ. Með þessu er ætlunin að stuðla að fermingin fái veglegri sess meðal fjölskyldunnar.
Áætlaðir fermingardagar árið 2013
Fermingarmessur eru á eftirtöldum dögum. Foreldrar eru hvattir til að velja einn af þeim.
17. mars Sunnudagur
24. mars Pálmasunnudagur
28. mars Skírdagur
7. apríl Sunnudagur eftir páska
14. apríl Sunnudagur eftir páska
21. apríl Sunnudagur eftir páska
28. apríl Sunnudagur eftir páska
5. maí Sunnudagur eftir páska
12. maí Sunnudagur eftir páska
19. maí Hvítasunnudagur
26. maí Sunnudagur
Safnaðarsalur.
Safnaðarsalur Fríkirkjunnar er leigður út til veisluhalda tengdum kirkjulegum athöfnum, einnig fyrir afmælisveislur, fundi og kennslu. Vegna útleigu fyrir fermingarveislur að vori hafa safnaðarfélagar forgang að safnaðarsal. Þó þurfa þeir að bóka salinn fyrir 1. október. Bókanir fara í gegnum skrifstofu safnaðarins.
Að gefnu tilefni.
Við viljum árétta að þau fermingarbörn sem ekki taka þátt í fermingarstarfinu hjá okkur geta tekið þátt í fermingarstarfi þjóðkirkjunnar og greitt þau gjöld sem þar eru innheimt.
Í slíkum tilvikum er engin þörf á að skrá fermingarbarnið úr Fríkirkjunni og í Þjóðkirkjuna. Prestar þjóðkirkjunnar eru opinberir embættismenn og þeim ber að þjóna öllum innan sóknarmarka án skilyrða.
Ef farið væri fram á slíkt við ykkur af þjóðkirkjuprestum þá biðjum við ykkur vinsamlegast að láta okkur vita.
Nákvæmlega sama trúin er játuð í báðum trúfélögunum Fríkirkjunni og Þjóðkirkjunni. Frekari upplýsingar um þetta má fá á vefsíðu fríkirkjunnar www.frikirkjan.is
552-7270 eða senda okkur tölvupóst á frikirkjan@frikirkjan.is
Skrifstofa safnaðarins í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar að Laufásvegi 13, er opin alla virka daga frá 9:00 til 16:00.
Með kærri kveðju og von um að heyra frá ykkur sem fyrst,
Hjörtur Magni Jóhannsson Bryndís Valbjarnardóttir
Fríkirkjuprestur Aðstoðarprestur