Hjörtur Magni Jóhannsson, Fríkirkjuprestur við Tjörnina.Hjörtur Magni Jóhannsson, Fríkirkjuprestur við Tjörnina.
Hjörtur Magní Jóhannsson skrifar

Hefðin fyrir sunnudagsmessum RÚV nær alveg aftur til fyrstu útsendinga Ríkisútvarpsins árið 1930. Fríkirkjan í Reykjavík hefur verið hluti af þeirri hefð alveg frá upphafi enda söfnuðurinn og kirkjubyggingin svo samofin sögu og ímynd Reykjavíkur og íslensks samfélags að ekki verður sundur greint. Fyrsta tilraunaútsendingin árið 1926 var frá messu sr. Ólafs Ólafssonar Fríkirkjuprests. Hann þjónaði bæði Fríkirkjunni í Reykjavík og síðan í Hafnarfirði. Útvarpað var frá fjölmörgum messum, útförum og tónleikum í Fríkirkjunni á ári hverju enda tilheyrði um helmingur íbúa Reykjavíkur þá Fríkirkjunni.

En í stað þess að Fríkirkjan fengi áfram að vaxa eðlilega, miðlæg í reykvísku samfélagi þá var sett lítil reglugerð, í þágu þjóðkirkjunnar. Reglugerðin miðaði að því að útiloka hina lútersku Fríkirkju. Lítið var hugað að jafnræði trúfélaga þó svo að bæði trúfélögin ættu að njóta verndar 62. gr. stjórnarskrárinnar. Við það eitt að flytja lögheimili sitt var fríkirkjufólk sjálfkrafa skráð úr Fríkirkjunni yfir í þjóðkirkjuna í þúsunda vís án vitundar eða samþykkis þess fólks eða afkomenda. Trúfélagagjöld fríkirkjufólks runnu þannig í mörg ár til þjóðkirkjunnar sem nýtti þau til að efla eigin forréttindastöðu. Maður hefði haldið að hlutirnir hefðu lagast.

Ekki gert ráð fyrir
En það kom verulega á óvart að ekki var gert ráð fyrir Fríkirkjunni í útvarpsmessum RÚV þetta árið í tengslum við stofndag hennar 19. nóv. 1899. Maður velti því fyrir sér hvort það væri ætlun þjóðkirkjunnar að útiloka Fríkirkjuna frá útsendingum RÚV. Þegar ég leitaði til RÚV var mér vísað á biskupsstofu annars trúfélags og sú biskupsstofa vísaði aftur á RÚV. Það er grundvallaratriði fyrir okkur fríkirkjufólk að þurfa ekki að eiga það undir geðþótta annars trúfélags hvort við fáum inni hjá útvarpi allra landsmanna.

Þjóðkirkjan er auðvitað ríkisstofnun þó svo að eitthvað hafi verið greint á milli stofnunarinnar og ríkisins hvað stjórnun og fjárhald varðar. Sú hróplega mismunun sem er á milli þjóðkirkjunnar og okkar lútersku Fríkirkju er þvílík að einungis orðið ríkiskirkja nær að lýsa því.

Minni bræður og systur
Í öllu tali sínu um aðskilnað ríkis og kirkju hefur þjóðkirkjustofnunin látið sem evangelísk-lúterskar fríkirkjur séu ekki til. Nú virðist biskupsstofa láta sem Fríkirkjan sé ekki til og að henni sé ókunnugt um hennar sögu.
Það hvernig komið er fram við minni bræður og systur er glöggur mælikvarði á hversu kristilegar trúar­stofnanir eru. Kirkjustofnuninni er ekki ætlað að upphefja sjálfa sig, heldur að vísa frá sér, til þess Jesú frá Nasaret sem var stöðugt á jaðrinum, hundsaði engan, samneytti hinum útilokuðu og var í raun meinilla við trúarlegar stofnanir. Sú evangelísk-lúterska kirkja sem 62. gr. stjórnaskrár okkar fjallar um var einmitt stofnuð til að vara við milljarða-kirkjustofnunum sem stunda grimma sérhagsmunavörslu.

Mannréttindi
Fríkirkjan var stofnuð aðeins 25 árum eftir að við fengum trúfrelsi árið 1874 og hefur því starfað á þremur öldum. Fríkirkjan er því bæði eldri en RÚV og reyndar þjóðkirkjustofnunin í þeirri lagalegu umgjörð sem hún hefur í dag.
Fríkirkjusöfnuðurinn við Tjörnina hefur tekið frumkvæði í ýmsum mikilvægum mannréttindamálum þar sem ríkiskirkjan hefur dregið lappirnar og hindrað. Nefna má skelegga baráttu sr. Ólafs Ólafssonar á fyrrihluta síðustu aldar fyrir kvenréttindum og framgöngu Fríkirkjunnar undanfarin ár í baráttunni fyrir því að samkynhneigðir megi ganga í hjónaband.

Það er mikið til okkar leitað. Þeir sem vilja að kristin gildi móti okkar samfélag, þeir fagna vexti Fríkirkjunnar og vilja að rödd hennar heyrist á RÚV. Einu hamlandi áhrifin eru frá þjóðkirkju.

Í útvarpspredikunum á RÚV hef ég oft gagnrýnt þjóðkirkjuna, í anda Lúters. Sú gagnrýni hefur í allnokkur skipti ratað í fréttatíma RÚV og annarra fjölmiðla, samdægurs.

Ef þjóðkirkjan sem glímir nú við verulegar úrsagnir í þúsundavís fær nú að útiloka Fríkirkjuna sem er í örum vexti, þá er það vissulega athyglivert innlegg í umræðuna um jafnræði trúfélaga hér á landi.

Það myndi einnig vekja spurningar um hlutleysi RÚV sem fjölmiðils í almannaþágu.

Útvarpsmessur RÚV breyta ekki heiminum. En okkar rödd má heyrast. Við erum öðruvísi. Við leitumst ekki við að ná eyrum hinna rétttrúuðu. Við vörum við bókstafstrú, hefðarhyggju og þröngsýni. Við viljum láta gleði, spuna og fagmennsku einkenna okkar fjölbreytilegu tónlist. Við reynum m.a. að ná til þeirra þúsunda Íslendinga sem hafa skráð sig utan kirkju en leita í það bjarta ljós sem engan útilokar.   Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.