Lestur Passíusálma, föstudaginn langa 14. apríl kl. 13

Á föstudaginn langa, 14. apríl nk., verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í heild sinni í Fríkirkjunni í Reykjavík.
Halldór Hauksson les sálmana og leikur á píanó fjórradda útsetningar eftir Johann Sebastian Bach á nokkrum af lögunum sem séra Hallgrímur samdi sálmana við.
Flutningurinn hefst kl. 13 og stendur í um fimm klukkustundir.
Aðgangur er ókeypis.
Halldór helgar lesturinn minningu móður sinnar, Sveinrósar Sveinbjarnardóttur, sem lést í apríl á síðasta ári.

Passíusálmarnir eru höfuðverk Hallgríms Péturssonar og meðal merkustu bókmenntaverka Íslendinga.
Þessi magnaða túlkun skáldprestsins á „historíu pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí“ í fimmtíu sálmum var fyrst prentuð árið 1666 og öðlaðist fljótt sérstaka stöðu í trúar- og menningarlífi þjóðarinnar. Sálmarnir hafa síðan komið út oftar en 80 sinnum og verið þýddir á fjölmörg tungumál. Passíusálmarnir hafa verið lesnir á föstunni í Ríkisútvarpinu um áratuga skeið og á síðustu árum hefur sú hefð að flytja sálmana í dymbilviku skotið rótum í mörgum kirkjum landsins, enda tala sálmarnir jafn sterkt til þeirra sem á þá hlýða á 21. öld og þeirra sem fyrst heyrðu sálmana, lásu þá og sungu á seinni hluta 17. aldar.

Hallgrímur samdi Passíusálmana við erlend sálmalög er borist höfðu til Íslands. Þessi sálmalög úr hinum sameiginlega lúterska kirkjusöngsarfi eru enn sungin víða um heim í ýmsum gerðum nú þegar 500 ár eru liðin frá siðbót Marteins Luthers. Johann Sebastian Bach er að öðrum ólöstuðum þekktasti túlkandi sálmalaganna og þau eru ein af uppistöðunum í tónlist hans.
Halldór Hauksson mun gera hlé á lestri Passíusálmanna á völdum stöðum og leika rómaðar útsetningar Bachs á nokkrum af þessum lögum.

Halldór Hauksson er tónlistarmenntaður og hefur starfað sem útvarpsmaður. Hann var dagskrárstjóri á útvarpsstöðinni Klassík FM á árunum 1996-2000.
Á undanförnum árum hefur hann unnið margskonar efni fyrir Ríkisútvarpið, m.a. í þáttunum Hlaupanótunni og Víðsjá, þar sem innskot hans undir merkjum Himbrima vöktu athygli. Halldór hefur leitað nýrra leiða við að glæða áhuga Íslendinga á klassískri tónlist, allt frá því að koma fram í útvarpsþættinum Tvíhöfða til námskeiðshalds á vegum Leikmannaskóla þjóðkirkjunnar og Endurmenntunar Háskóla Íslands. Halldór hefur einnig skrifað um tónlist í dagblöð og ritað greinar í geisladiskabæklinga og tónleikaskrár, m.a. fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, Salinn í Kópavogi og Listvinafélag Hallgrímskirkju.
Á seinni árum hefur Halldór stundað spunaleik á píanó og einnig samið allmörg kórlög, þar á meðal flokk laga við sálma eftir Hallgrím Pétursson.
Halldór hefur tvisvar áður lesið Passíusálmana í heild, í Hóladómkirkju árið 2014 og í Fríkirkjunni í Reykjavík 2015.