Eldmessa – afmælistónleikar sunnudaginn 19. nóvember kl. 17

Í tilefni af 118 ára afmæli Fríkirkjusafnaðarins 19. nóvember verða haldnir tónleikar í kirkjunni  kl. 17 sem bera yfirskriftina Eldmessa.

Verkið er samvinnuverkefni Sönghóps Fríkirkjunnar og Gunnars Gunnarssonar organista við tvo norska tónlistarmenn og tvo ítalska – trompetleikarann Arne Hiorth, söngkonuna Maren Eikli Hiorth, djasspíanistann Claudio Vignali og gítarleikarann Daniele Principato.

Í Eldmessu er spuni í hávegum hafður, bæði hjá hljóðfæraleikurum og kór. Verkið lýsir í tónum þeim náttúruhamförum sem áttu sér stað í Skaftáreldum 1783 og Móðuharðindunum sem fylgdu í kjölfarið þegar 5. hver Íslendingur lést. Áhrifa gossins varð vart víða um heim. Þurrkar og þrumuveður gengu yfir meginland Evrópu og í Póllandi og Rússlandi féll snjór um mitt sumar. Óvenju miklir þurrkar voru einnig í Egyptalandi og Indlandi. Í Japan brást hrísgrjónauppskera sem leiddi til mesta hallæris í sögu landsins. Höfnin í New York lokaðist í 10 daga vegna ísa og krapi sást á Mississippi-fljóti.

Eldmessa dregur nafn sitt af messu sr. Jóns Steingrímssonar þar sem hann er talinn hafa unnið kraftaverk þegar hraunrennslið úr Laka stöðvaðist við kirkjudyr,  20. júlí 1783.